Svíar breyta vinnulöggjöf vegna verkfallsaðgerða
Röð langvarandi verkfallsaðgerða hafnarverkamanna í Gautaborg hefur leitt til þess að sænska ríkisstjórnin hyggst breyta vinnulöggjöfinni. Þetta kemur fram í frétt vefmiðilsins Arbetsmarknadsnytt en vegna aðgerðanna hefur höfnin verið rekin á 60% afkastagetu. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir miklu tjóni og mörg hafa valið að nýta aðrar flutningsleiðir. Vinnumarkaðsráðherrann, Ylva Johansson, telur ástandið við höfnina alvarlega ógn við sænskt efnahagslíf og störfin í landinu.
Alvarleg staða
Til að bregðast við hyggst ríkisstjórnin styrkja sænska vinnumarkaðslíkanið sem hefur í tvo áratugi stuðlað að stöðugleika í efnahagslífinu og samfelldri kaupmáttaraukningu launa í Svíþjóð. Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd sem á að leggja fram tillögur um að sænska líkanið þjóni áfram hagsmunum þjóðarinnar.
Lagabreyting innan árs
Sænska ríkisstjórnin hefur tilnefnt sérfræðing sem hefur fengið það verkefni að gera tillögur um breytingar á lögum um verkfallsrétt þegar í gildi er kjarasamningur á viðkomandi sviði eða ástæða verkfallsaðgerða er önnur en gerð kjarasamnings. Vinnumarkaðsráðherrann vonast til þess að ný lög taki gildi innan árs.
Deilan í hnotskurn
Sænska vinnumarkaðslíkanið hefur ekki verið virt á hafnarsvæðinu í Gautaborg. Vinnudeilan milli rekstraraðila hafnarsvæðisins og verkalýðsfélags hafnarverkamanna snýst um að vinnuveitandinn er þegar með gildan kjarasamning við landsfélag flutningaverkamanna og getur þar af leiðandi ekki undirritað kjarasamning við annað verkalýðsfélag. Verkalýðsfélag hafnarverkamanna krefst þess að gerður sé kjarasamningur við félagið og hefur ítrekað boðað til verkfallsaðgerða.
Að mati vinnuveitenda misnotar verkalýðsfélag hafnarverkamanna verkfallsréttinn og hefur krafist endurskoðunar á honum. Að mati þeirra ætti klofningsfélag á borð við verkalýðsfélag hafnarverkamanna ekki að hafa verkfallsrétt þegar í gildi er almennur kjarasamningur fyrir þessi störf.
Sjá nánar: