Stýrivextir of háir
Vextir á Íslandi eru of háir að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem tekur undir orð forsætisráðherra. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
„Við teljum að vextir séu of háir. Verðbólguspár Seðlabankans hafa ofmetið verðbólguna um eina prósentu og þá má færa rök fyrir að stýrivextir í dag séu hærri en lagt var upp með þegar þeir voru settir. Við höfum miðað við að þeir séu einu prósentustigi of háir hið minnsta,“ sagði Halldór í samtali við blaðið en í fréttinni segir:
Sigurður Ingi Jóhannsson vakti máls á vaxtastefnu Seðlabankans í áramótaávarpi sínu og sagði bankann halda vöxtum of háum hvort sem væri í kreppu eða uppgangi. Í ávarpinu talaði Sigurður Ingi einnig um að leita þyrfti nýrra lausna í peningamálum, t.d. að beita aðhaldi í ríkisrekstri, en Halldór segir að núverandi stjórnvöld hefðu getað gengið harðar fram á síðustu árum.
„Fyrir síðustu uppsveiflu árin 2004 til 2008 var afgangur af ríkisreikningi átta til tíu prósent af landsframleiðslu. Síðustu fimm ár hefur hann verið 0,8 til 1,4 prósent. Við verðum að sýna meira aðhald í rekstri hins opinbera.“