Stýrivextir lækka
Á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í morgun var tilkynnt um 0,25% stýrivaxtalækkun og er þetta þriðja vaxtalækkunin á fimm mánuðum. Samtals hafa því stýrivextir lækkað um 0,75% frá því í maí. Eftir hóflega gengislækkun síðsumars hefur gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt undanfarnar vikur og hnigu sterk rök að vaxtalækkun. Vegur þar þyngst að á undanförnum vikum hafa komið fram sterkar vísbendingar þess efnis að það sé að hægja á hagkerfinu. Útlánavöxtur er enn lítill, langtímaverðbólguvæntingar við markmið og verðbólga hefur lækkað undanfarna mánuði.
Það er vonandi að áfram verði skilyrði til vaxtalækkana en sjaldan hefur verið eins mikilvægt og nú að bæði stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðar sýni ábyrgð.
Skilaboð Seðlabankans eru skýr, pólitísk óvissa og órói á vinnumarkaði eru þættir sem Seðlabankinn getur að litlu leyti tekið inn í vaxtaákvarðanir sínar í dag og er það skynsamleg nálgun hjá bankanum. Telur Seðlabankinn það nú vega þyngra að hagvöxturinn verði minni en spár hafa gert ráð fyrir. Nýlegar vísbendingar þess efnis að það dragi úr spennu á vinnumarkaði auk hófstilltari væntinga fyrirtækja til efnahagsframvindu mynda einnig grunn fyrir vaxtalækkun bankans.
Það er vonandi að áfram verði skilyrði til vaxtalækkana en sjaldan hefur verið eins mikilvægt og nú að bæði stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðar sýni ábyrgð. Hófsemd í launahækkunum og ríkisútgjöldum mun styðja við vaxtalækkunarferli Seðlabankans.
Vaxtalækkun Seðlabankans veitir fyrirheit um að áfram verði haldið í að minnka vaxtamun við útlönd. Seðlabankinn hefur brugðist við miklum raunvaxtamun við útlönd með því að setja á innflæðishöft, þvert gegn ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem segja þau skaðleg íslenskum efnahag til lengri tíma. Þau séu neyðarúrræði sem ekki eigi að gegna lykilhlutverki í almennri hagstjórn. Það er vonandi að á næstu misserum verði horfið frá slíkum haftabúskap.
Tengt efni: