Stuðningslán henta of fáum og lokunarstyrkir eru of lágir

Samtök atvinnulífsins fagna mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna þeirrar fordæmalausu stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi, en leggja til nokkrar breytingar. SA telja til að mynda að stuðningslán sem stjórnvöld kynntu sem hluta af öðrum aðgerðarpakka henti of litlum hluta hagkerfisins, að meira jafnræðis þurfi að gæta í jöfnun tekjuskatts fyrirtækja og að þakið á hinum svokölluðu lokunarstyrkjum þurfi að vera hærra. Þá leggja Samtök atvinnulífsins til að aðlögun að breyttum aðstæðum í samfélaginu í tengslum við efnahagsáfallið þurfi einnig að eiga við um opinbera markaðinn. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um frumvörp í tengslum við annan aðgerðarpakka stjórnvalda sem kynntur var þann 21. apríl síðastliðinn sem hefur þegar verið skilað að ósk efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis.

Að mati Samtaka atvinnulífsins eru stuðningslán með ríkisábyrgð mikilvæg aðgerð og til þess fallin að styðja við þau örfyrirtæki sem aðgerðin nær til. Stuðningslánin hafi þó verið kynnt á þeim forsendum að þau eigi að ná til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en eitt af þeim skilyrðum sem fyrirtæki þurfi að uppfylla til að fá lánið er að tekjur þess í fyrra hafi verið að hámarki 500 milljónir króna. Það skjóti skökku við því að samkvæmt lögum um ársreikninga eru lítil fyrirtæki skilgreind með veltu undir 1,2 milljarði króna og meðalstór fyrirtæki með veltu undir 6 milljörðum króna. 

Stuðningslánin ná þannig aðeins til lítils hluta viðskiptahagkerfisins, eða um 15 prósent. Eftir standa 85 prósent sem lánin ná ekki til.

SA leggja til að stuðningslánin nái til fyrirtækja sem hafa tekjur allt að 1,2 milljarði króna og að lánsfjárhæð taki mið af rekstrarkostnaði fyrirtækja í beinu hlutfalli við tekjufall, að því gefnu að tekjutapið sé 40 prósent eða meira.

Þá telja SA jöfnun tekjuskatts nauðsynlega ráðstöfun. Hún gerir fyrirtækjum sem sjá fram á tap í ár kleift að sækja um frestun á greiðslu tekjuskatts síðasta árs þar til álagning næsta árs liggur fyrir og geta þar af leiðandi lækkað skattkröfuna. Hins vegar telja samtökin hámark skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á of lágt, en það er 20 milljónir króna sem samsvarar skatti af 100 milljóna króna skattstofni. Þau fyrirtæki sem skiluðu meiri hagnaði á síðasta ári geta hæglega lent í miklu tapi í núverandi árferði. Ríkissjóður setti ekki þak á skattgreiðslur þeirra fyrirtækja í fyrra. Ákvæðið í núverandi mynd feli þannig í sér ómálefnalega mismunun sem sé ekki rökstudd nægjanlega.

Að mati SA er hámarksfjárhæð svokallaðra lokunarstyrkja, 800 þúsund krónur á hvern launamann en þó að hámarki 2,4 milljónir á hvern rekstraraðila, of lág. Upphæðin taki ekki nægilega mið af þeirri alvarlegu stöðu sem fjöldi fyrirtækja stendur frammi fyrir eftir að hafa þurft að loka starfsemi sinni með öllu í tæpar sex vikur.

Þá telur SA það einkennilegt að frumvarpið horfi ekki til þess í hvaða starfshlutfalli launamenn fyrirtækis eru við mat á hámarki styrkfjárhæðar, en félag með tvo starfsmenn í 100 prósent starfi getur mest fengið 1,6 milljónir króna á sama tíma og félag með þrjá starfsmenn í 50 prósent starfi getur fengið hámarksstyrk.

 

Meðal þess sem einnig kemur fram í umsögn SA, eru vonbrigði yfir því að engin hagræðingarkrafa sé sett á ríkisstofnanir í frumvarpinu. Opinberi markaðurinn eins og hinn almenni þurfi að aðlagast breyttu efnahagsumhverfi. Ríkissjóður geti ekki brugðist við versnandi efnahagshorfum, tekjufalli og auknum útgjöldum með hækkun skatta og gjalda á íslenskt atvinnulíf til að standa undir samneyslunni líkt og gert var í kjölfar bankahrunsins. SA skorar á stjórnvöld að leita nú allra leiða til að hagræða í ríkisrekstri.

Hér má nálgast umsögn SA um frumvörpin í fullri lengd.