Straumur út af vinnumarkaði

Öryrkjum með 75 prósenta örorku hefur fjölgað um tæplega eitt þúsund á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram í gögnum Tryggingastofnunar en fréttastofa RÚV fjallaði um málið. Það er fimmtíu prósenta aukning miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Hannes G. Sigurðsson framkvæmdastjóri SA, segir að með því að taka upp starfsgetumat sé hægt að koma í veg fyrir að vinnufært fólk hverfi af vinnumarkaði vegna örorku.

Í drögum að frumvarpi um almannatryggingar var gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar á næsta ári hæfist samstarfsverkefni stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og samtaka örorkulífeyrisþega um innleiðingu kerfisbreytingar í mati á örorku. Yrði breytingin að veruleika færu allir umsækjendur um örorku- og endurhæfingarlífeyri í gegnum starfsgetumat, auk starfsendurhæfingar, í stað þess styðjast við núverandi örorkumat sem er byggt á læknisfræðilegu mati. 

Hannes segir í samtali við fréttastofu RÚV að starfsgetumatið geri það verkum að þeir sem séu vinnufærir séu ekki teknir af vinnumarkaði vegna örorkumats. 

„Það er unnt að koma í veg fyrir að fólk detti út af vinnumarkaði í mjög mörgum tilvikum og það er það sem þarf að leggja áherslu á.“

Forystumenn á vinnumarkaði hafa undanfarin ár kallað eftir breytingum á endurhæfingarkerfinu.

„Ef við setjum þessar tölur í samhengi við nýliðun á vinnumarkaði þá er þetta meiri fjöldi heldur en þeir nýju einstaklingar sem koma inn vegna náttúrulegrar fjölgunnar. Þetta eru ískyggilegar tölur og mikið vinnumarkaðsvandamál í raun og veru. Þetta segir okkur það að við verðum að leggja enn meiri áherslu á starfsenduræfingu en hingað til hefur verið gert,“ segir Hannes. Tölurnar sýni að núverandi kerfi skili ekki árangri. Núverandi örorkumat afskrifi vinnufæra einstaklinga af vinnumarkaði. Starsgetumat sé jákvæðara fyrir fólk og samfélagið.

„Eðli málsins samkvæmt felst starfsgetumat í því að starfsgetan er metin að einhverju leyti skert og þá er viðkomandi hæfur til þess að gegna mögulega hlutastarfi og tölur sýna það að fjöldi hlutastarfa er mikill á Íslandi þannig að vinnumarkaðurinn ætti í sjálfu sér á Íslandi að geta tekið við töluverðum fjölda af fólki með skerta starfsgetu.“

Samtök atvinnulífsins hefðu viljað að starfsgetumatið tæki gildi strax á næsta ári, líkt og nefnd um endurskoðun á almannatryggingum lagði til í upphafi.

 „Ég er ekki í nokkrum vafa um það að aukin áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, að snemmbær inngrip þar sem fólk sem er í vanda og er að detta út af vinnumarkaði fái þjónustu við hæfi og að það muni stuðla að því að færri fari á varanlegan lífeyri.“

Í dag flutti RÚV hins vegar þær fréttir að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, hafi kippt út ákvæði um samstarfsverkefni um innleiðingu starfsgetumats  út úr frumvarpi um almannatryggingar vegna gagnrýni Öryrkjabandalagsins.

Umfjöllun RÚV:

Öryrkjum fjölgað verulega

Segir vinnufæra einstaklinga afskrifaða

Öryrkjar og Eygló ná sínu fram