Störfum fjölgar ekki nógu hratt
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hagvöxt of lítinn, Ísland sé á botninum og gangi illa að spyrna sér upp. Í fréttum Sjónvarpsins í vikunni kom fram í viðtali við Gylfa Zoëga hagfræðiprófessor að kreppunni væri lokið og að uppsveifla væri í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur væri svipaður og 2005 og að Ísland væri "í nokkuð góðum málum og allt að batna frá degi til dags".
Vilhjálmur er ekki sammála greiningu Gylfa og bendir á að þótt hagvöxtur hafi verið hérlendis upp á 3,1% á síðasta ári, sem er ágætt miðað við mörg önnur Evrópuríki, þá sé munur á stöðu Íslands og annarra ríkja.
Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is:
"Þegar þú berð saman hagvaxtartölur fyrir Ísland og Evrópu þá þurfum við meiri hagvöxt því fólkinu er alltaf að fjölga." Segir hann Ísland hafa farið neðar en flest önnur ríki og því sé þörf á meiri hagvexti hérlendis eftir hrun en þeim rúmu 3% sem við höfum núna. Vilhjálmur telur nauðsynlegt að hagvöxtur sé á bilinu 4-5% næstu 3 árin líkt og hafði verið í spám Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
"Með þennan tiltölulega litla hagvöxt erum við ekki að ná til baka störfunum sem við töpuðum né að ná atvinnuleysinu niður með samskonar hraða og við teljum æskilegt og þess vegna höfum við verið að kalla eftir því að fjárfestingar séu auknar."
Halldór Árnason, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag að störfum hafi fjölgað hægt og meginskýringuna á því að skráð atvinnuleysi hafi minnkað megi rekja til átaksverkefna stjórnvalda og aðila vinnnumarkaðarins. Þannig hafi hátt í 1.000 manns farið af atvinnuleysisskrá um síðustu áramót vegna þess að viðkomandi fóru í nám. Mikilvægt sé að störf verði til staðar fyrir þetta fólk þegar námi lýkur.