Stöldrum við
Það einkennir farsæl samfélög að mál eru leidd til lykta á yfirvegaðan hátt eftir vandaða skoðun. Ríkisstjórnin áformar í fjármálaáætlun sinni að hækka virðisaukaskatt á stærstu útflutningsgrein Íslands, ferðaþjónustuna. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2018-2022 kemur fram:
„Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að nýr meirihluti hefur ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára.“
Þarna hitti fjárlaganefnd naglann á höfuðið. Það liggur fyrir að ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila við undirbúning málsins, greiningum var ábótavant og aðdragandinn skammur. Þessi breyting virðisaukaskatts er áformuð á sama tíma og styrking krónunnar hefur valdið versnandi afkomu greinarinnar, eins og annarra útflutningsgreina landsmanna. Spár um frekari styrkingu krónunnar á þessu ári valda þungum áhyggjum enda kippir sterkt gengi krónunnar stoðum undan rekstri fjölmargra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni, einkum smærri og nýlega stofnaðra fyrirtækja.
Ég tel að það sé óvarlegt að halda áfram með núverandi áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu án þess að greina málið betur.
Skipting kökunnar
Ferðaþjónustan hefur leikið lykilhlutverk í efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að á þessu ári muni tekjur ríkissjóðs af sköttum og gjöldum sem tengjast komu ferðamanna til landsins nema um 90 milljörðum króna. Þrátt fyrir það hefur gengið of hægt að byggja upp innviði sem eru nauðsynlegir til að mæta margföldun ferðamanna á örfáum árum. Þar er ekki við ferðaþjónustuna að sakast heldur stjórnvöld. Ein ástæða þess að svo hægt hefur gengið er skortur á aðkomu sveitarfélaganna að málefnum greinarinnar.
Fjölmörg sveitarfélög á landsbyggðinni eru illa í stakk búin til að sinna auknum verkefnum vegna fjölgunar ferðamanna á viðkomandi svæðum. Nauðsynlegt er að auka aðkomu sveitarfélaga að uppbyggingu greinarinnar. Forsenda þess er endurskoðun á skiptingu skatttekna, sérstaklega beinna skatttekna eins og virðisaukaskatts, af greininni milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin verða að njóta aukinna tekna af ferðamönnum í ríkari mæli svo þau geti sinnt þeim skyldum sem á þau eru lögð.
Fagleg vinnubrögð – farsæl niðurstaða
Ég tel að það sé óvarlegt að halda áfram með núverandi áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu án þess að greina málið betur. Notum tímann til að fara yfir núverandi skatttekjur og meta skatttekjur til framtíðar miðað við núverandi skattstofna og gjaldtöku. Kryfjum áhrif mismunandi tegundar gjaldtöku á greinina og leggjum mat á ólíkar sviðsmyndir út frá mismunandi forsendum. Að þessu verki þurfa að koma fulltrúar frá ríki, sveitarfélögum og atvinnugreininni. Að aflokinni slíkri greiningu lægi fyrir skýrari sýn á starfsumhverfi greinarinnar verði tryggt að hún vaxi og dafni með sjálfbærni og arðsemi að leiðarljósi. Reynslan sýnir að fagleg vinnubrögð sem þessi eru líkleg til að leiða til farsællar niðurstöðu fyrir land og þjóð.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2017