Stöðugleiki eykur samkeppnishæfni og bætir lífskjör

Að mati Samtaka atvinnulífsins hefur ríkt of mikil þögn um peningastefnu Íslands og því hafa samtökin lagt fram tillögur í nýju riti sem innlegg  í umræðu um endurbætur peningastefnunnar. Íslensk heimili og fyrirtæki eiga mikið undir því að vel takist til.  

Engar skyndilausnir
Íslenska peningastefnan er  í mótun og verður það næstu árin. Skyndilausnir eru ekki í boði og vandi íslenskrar hagstjórnar verður ekki leystur með upptöku nýrrar myntar eða með því að hverfa eina ferðina enn frá gildandi peningastefnu vegna lélegs árangurs.

Við blasir langtímaverkefni að leysa undirliggjandi vanda með endurbættri hagstjórn. Trúverðuga peningastefnu þarf til að tryggja stöðugleika til langframa og vera studd af stefnu í ríkisfjármálum og kjaramálum. Ábyrgðin liggur ekki aðeins hjá Seðlabankanum heldur einnig stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðar.

undefined

Samtök atvinnulífsins telja að einkum þurfi að líta til fjögurra þátt við endurskoðun peningastefnunnar.

Samhæfð hagstjórn
Stöðugt verðlag næst ekki til langframa nema efnahagsstefnan sé samhæfð, þ.e. peningastefnan, fjármálastefna hins opinbera og stefnan í kjaramálum stefni að sama marki. Aðilar vinnumarkaðar hagi launahækkunum þannig að þær samræmist verðstöðugleika. Fjármálastefna hins opinbera örvi hagkerfið á tímum samdráttar en slái á þenslu á tímum góðæris. Ríkja þarf pólitísk samstaða um verðstöðugleika sem meginmarkmið og skilningur á aðgerðum sem beita þarf til að varðveita hann.

undefined

Mikilvægar efnahagslegar umbætur eru í undirbúningi á vinnumarkaði og hjá hinu opinbera sem geta skilað miklum árangri ef vel tekst til. Miklar væntingar eru bundnar við breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga og nýtt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd.

Þjóðhagsvarúð mikilvæg
Seðlabankinn hefur lýst í tvígang á undanförnum árum nýjum ramma peningastefnunnar og greint frá þjóðhagsvarúðartækjum sem bankinn telur þörf á til að styðja við peningastefnuna og tryggja fjármálastöðugleika.  

Ísland er ekki eitt um að innleiða þjóðhagsvarúðartæki en víða erlendis hefur þróunin verið í þá átt. Gæta verður hófs við innleiðinguna til að lágmarka neikvæð áhrif á samkeppnishæfni landsins, á langtímahagvöxt og lífskjör. Sem dæmi hefur reglum um bankakerfið fjölgað umtalsvert og eftirlit verið aukið. Það eru eðlileg viðbrögð við fyrri reynslu en auknir skattar og gjöld, auk strangari kröfu um eiginfjárbindingu, hafa aukið kostnað fjármálafyrirtækja verulega og þau búa ekki við sambærileg skilyrði og erlend fjármálafyrirtæki. Samkeppnishæfni þeirra er skert sem birtist í vexti innlendrar skuggabankastarfsemi og vaxandi markaðshlutdeild erlendra banka sem er orðin 30% í lánveitingum til íslenskra fyrirtækja. Stjórnvöld og Seðlabanki þurfa að finna hinn gullna meðalveg milli aukinnar reglusetningar og frjálslyndrar efnahagsstefnu.

Markaðsgengi krónunnar
Stærstu óvissuþáttum um gengi íslensku krónunnar hefur verið rutt úr vegi. Við núverandi kringumstæður í hagkerfinu er full ástæða til að láta reyna á markaðsgengi krónunnar og losa um fjármagnshöft á alla innlenda aðila. Fjármagnsflæði verði að fullu frjálst, nema því sem fellur undir varúðarreglur Seðlabankans. Það er nauðsynlegt til að hamla óhóflegri styrkingu krónunnar.

Við ríkjandi aðstæður, þar sem mikið fjármagn streymir inn í landið, er ástæðulaust að Seðlabankinn sé einn á kauphliðinni til að sporna gegn styrkingu krónunnar. Lífeyrissjóðir hafa frá árinu 2008 nánast eingöngu getað fjárfest innanlands og er uppsöfnuð fjárfestingaþörf þeirra erlendis orðin hátt í 200 milljarðar króna. Lagðar hafa verið til hraðahindranir á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða vegna þessarar uppsöfnuðu þarfar en í ljósi mikils innstreymis gjaldeyris liggur beint við að lífeyrissjóðir fái fullt frelsi til fjárfestinga erlendis. Þurfi lífeyrissjóðir áfram að búa við fjármagnshöft mun ekki reyna á markaðsverðmyndun krónunnar.

Mikilvægi verðstöðugleika

Það er ljóst að á næstu misserum þarf að vinna markvisst að samstöðu um mikilvægi verðstöðugleika og auka skilning almennings og stjórnmálamanna  peningastefnunni og hlutverki hennar. Seðlabankinn gegnir þar lykilhlutverki og ef vel tekst til fjölgar bandamönnum hans. Leitin að peningastefnu Íslands sem getur bætt lífskjör landsmanna heldur áfram.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 7. apríl.

Tengt efni:

Rit SA: Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni (PDF)

Umfjöllun Morgunvaktarinnar á RÚV 12. apríl 2016 – smelltu til að hlusta

Umfjöllun Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 13. apríl 2016 – smelltu til að hlusta