Stöðugleiki er forsenda framfara
Gott tækifæri gefst til þess að bæta verulega stöðugleikann í íslensku efnahagslífi á næsta ári og leggja þar með grunn að nýju stöðugleikatímabili út áratuginn. Kjarasamningarnir sem gerðir voru 5. maí 2011 gilda fram til janúarloka 2014 verði þeim ekki sagt upp í janúar nk. en þá er opnunarákvæði þeirra virkt. Umsamin almenn launahækkun sem kemur til framkvæmda 1. febrúar 2013 er 3,25% en kostnaðarhækkun í heild er metin 3,7%. Á móti þessum hækkunum var samið við ríkisstjórnina um að atvinnutryggingagjald lækkaði í takt við minna atvinnuleysi. Samkvæmt síðustu spá Hagstofunnar er áætlað að atvinnuleysi minnki úr 6,0% á þessu ári í 5,3% á því næsta sem gefur tilefni til lækkunar tryggingagjalds um 0,3%. Því má gera ráð fyrir að umsamin launakostnaðarhækkun atvinnulífsins verði innan við 3,5% á næsta ári.
Verðlag hefur hækkað minna undanfarna mánuði en reikna mátti með. Gengi krónunnar hækkaði skarplega þegar kom fram á sumar sem er ráðandi þáttur í þróun verðlagsins. Nú hefur gengið lækkað aftur en gengisvísitalan sem miðað er við er nú 215,9 stig en það er ennþá 6,4% lægra gildi (hærra gengi krónu) en þegar vísitalan fór hæst í 230,6 undir lok mars sl. Aðilar vinumarkaðarins horfa til þróunar kaupmáttar, verðlags og gengis þegar forsendur kjarasamninganna eru metnar. Helsta forsenda kjarasamninganna um vaxandi kaupmátt mun að öllum líkindum standast þótt verðbólga minnki ekki í 2,5% og gengisvísitalan fari ekki í 190 eins og miðað var við.
Verulegar líkur eru á því að hækkun á vísitölu neysluverðs milli desember 2011 og desember 2012 verði um eða innan við 4% þrátt fyrir að gengi krónunnar haldi áfram að lækka þegar líður fram á haustið. Gengisþróunin á næsta ári er hins vegar meiri óvissu háð. Gjaldeyrishöftin eru mesta ógnin við stöðugleikann. Þau skapa afar óeðlilegt viðskiptaumhverfi og með þeim er samfelldur þrýstingur til lægra gengis krónunnar vegna þess að gjaldeyri er sjaldnast skipt fyrir krónur nema til þess að borga kostnað, greiða af lánum eða kaupa eignir. Enginn vandi er leystur með höftunum heldur er hann stækkaður og lausninni frestað. Ekki er spáð mikilli aukningu útflutnings á næsta ári sem er forsenda þess að gengið styrkist umtalsvert. Nýtt innstreymi af gjaldeyri vegna fjárfestingarverkefna er það helsta sem gæti breytt stöðunni á gjaldeyrismarkaðnum og styrkt gengi krónunnar. Markmið í kjarasamningum byggðist einmitt á slíkum væntingum.
En verðbólguhorfurnar á næsta ári ættu að öllu jöfnu að vera hagstæðar vegna þess að umsamdar hækkanir á launakostnaði eru tiltölulega litlar og samræmast hjaðnandi verðbólgu. Lykilþátturinn í því að tryggja árangur liggur í fjárfestingum í atvinnulífinu og innstreymi af gjaldeyri vegna þeirra. Auknar fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, styrkja stöðugleikann til lengri tíma með auknu framboði af gjaldeyri ásamt því að skapa ný störf, draga úr atvinnuleysi og styrkja stöðu efnahagslífsins. Atvinnuleysi er nú undir 5% í fyrsta sinn frá hruni og mikilvægt er að það haldi áfram að minnka. Það er ákveðið áhyggjuefni að Seðlabankinn virðist nú telja að framleiðslugeta atvinnulífsins sé fullnýtt við 5% atvinnuleysi og að framleiðsluspenna fari að myndast við minna atvinnuleysi. Samtök atvinnulífsins hafa gengið út frá því að 2%-3% atvinnuleysi samræmist góðu efnahagslegu jafnvægi og að minnkun atvinnuleysis undir 5% gefi því Seðlabankanum ekki nýjar afsakanir fyrir vaxtahækkunum sem vinna gegn nauðsynlegum fjárfestingum í atvinnulífinu.
Allir hafa hag af hjaðnandi verðbólgu og auknum stöðugleika. Samtök atvinnulífsins telja það enga ógn við stöðugleikann að störfum fjölgi og atvinnuleysi minnki. Líka þarf að horfa til þess hversu margir hafa horfið af vinnumarkaðnum til starfa erlendis eða í nám. Það er nauðsynlegt að hafa ríflegan hagvöxt, t.d. 4% - 5% í a.m.k. þrjú ár samfellt, til að ná atvinnuleysinu vel niður og skapa Íslandi aftur möguleika til þess að verða meðal fremstu þjóða. Hörð alþjóðleg samkeppni um fólk, fyrirtæki og markaði heldur áfram þrátt fyrir að víða um heim séu erfiðleikar þessa stundina. Horfa þarf til lengri tíma og ná samstöðu um að auka fjárfestingar í atvinnulífinu sem er lykillinn að árangri.
Mörg verkefni bíða nýrrar atvinnustefnu en fyrst verður að hverfa frá þeirri stefnu þar sem skapað hefur endalaus vandamál hjá stjórnvöldum vegna helstu útflutningsgreina landsmanna, bæði sjávarútvegs og stóriðju, og nú birtist líka áformum um stórfellda röskun á högum ferðaþjónustu. Nú þegar sér fyrir endann á fjárhagslegri uppstokkun fyrirtækja í kjölfar bankahrunsins og fjármálafyrirtækin eru að fá fast land undir fætur. Það eiga því að vera miklir möguleikar til fjárfestinga í helstu útflutningsgreinum og ennfremur í nýjum útflutningstækifærum. Það er bráðnauðsynlegt að nýta það tækifæri sem lágt gengi krónunnar skapar til þess að stækka útflutningsgrunninn og auka útflutningsgetuna.
Kjarasamningarnir skapa gott tækifæri til þess að stefna inn í nýtt skeið stöðugleika í efnahagslífinu samfara framförum á öllum sviðum. Það væri sögulegt glappaskot að sleppa þessu tækifæri.
Vilhjálmur Egilsson
Tengt efni:
Umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar - smelltu til að hlusta