Stjórnmálamenn vinni fyrir laununum sínum
Mikilvægt er að stjórnmálamenn og stjórnvöld fari að vinna fyrir laununum sínum, með því að gefa atvinnulífinu tækifæri til að skapa þær tekjur sem þarf til að standa undir launum þeirra og annarra. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við fréttastofu RÚV í tilefni að því að kjararáð dró fyrir jól til baka launalækkanir hjá ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum í kjölfar efnahagshrunsins.
Vilhjálmur segist hafa reiknað með því að launalækkanirnar væru tímabundnar og því komi það ekki á óvart að þær gangi til baka. Erfitt sé að segja til um hvort tímasetningin sé rétt en launalækkanir á almennum vinnumarkaði hafi verið að ganga að einhverju leyti til baka.
Nú skipti hins vegar mestu máli að skapaðar verði þær aðstæður hér á landi að atvinnulífið geti byrjað að fjárfesta svo einhverju nemi og grunnur verði lagður að öflugum hagvexti með kærkominni tekjuaukningu fyrir fyrirtæki, heimili og ríkissjóð.
Sjá nánar: