Stjórnlaus vinnumarkaður
Á Norðurlöndunum ríkir eftirsóknarverður stöðugleiki sem Íslendingar þekkja bara af afspurn. Þar eru verðbólga og vextir miklu lægri en hér á landi. Á síðustu 20 árum hafa launahækkanir verið tvöfalt hærri en hjá frændþjóðum okkar, verðbólga þrefalt meiri og vextir fjórfalt hærri. Sama gildir þegar litið er fimm, tíu, fimmtán eða þrjátíu ár til baka. Við skerum okkur alltaf úr.
Vinnubrögð á íslenskum vinnumarkaði grafa ítrekað undan efnahagslegum stöðugleika og að óbreyttu verður sú saga endurtekin aftur og aftur. Á árunum 2012-2016 gerðu aðilar vinnumarkaðarins tilraun til að breyta umgjörð kjarasamninga. Þær tilraunir mistókust og er nánast útilokað að þessir aðilar komist að samkomulagi um skipulagsbreytingar sem máli skipta í náinni framtíð.
Í upphafi níunda og tíunda áratugar síðustu aldar voru breytingar gerðar á umgjörð kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum sem skiluðu efnahagslífi þeirra auknum stöðugleika. Í hnotskurn eru leikreglurnar þær að tónninn er sleginn hjá samningsaðilum útflutningsgreina. Í kjölfarið fylgja aðrir samningsaðilar þeim tóni og tekur ferlið aðeins nokkrar vikur. Um skipulagið og ferlið ríkir víðtæk sátt í viðkomandi ríkjum. Hérlendis gera landssambönd Alþýðusambandsins og Samtök atvinnulífsins stefnumarkandi kjarasamninga, sem ná til rúmlega helmings launamanna á almennum vinnumarkaði í öllum atvinnugreinum. Í framhaldinu tekur við eins til tveggja ára samningalota aragrúa samningsaðila á almennum og opinberum vinnumarkaði, þar sem stéttarfélög freista þess að knýja fram meiri hækkanir en felast í stefnumarkandi samningum og gengur opinberi vinnumarkaðurinn jafnan lengst í þeim efnum.
Á Norðurlöndunum hefur ríkissáttasemjari úrræði til að tengja saman hópa, fresta aðgerðum og tryggja að markaðri launastefnu sé framfylgt. Hérlendis eru valdheimildir sáttasemjara takmarkaðar. Óskipulag á vinnumarkaði stuðlar að þeim efnahagslega óstöðugleika sem við upplifum ár eftir ár, áratug eftir áratug. Svo verður áfram nema gerðar verði breytingar á leikreglunum. Það er einungis á færi stjórnvalda að breyta þeim.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 7. október 2021