Stjórnendur hækkuðu minnst starfsstétta árið 2015

Á árinu 2015, milli þriðja ársfjórðungs 2014 og sama ársfjórðungs 2015, hækkuðu stjórnendur og sérfræðingar minnst allra starfsstétta, eða um liðlega 5%.  Meðalhækkunin launavísitölunnar var rúmlega 8%, en verkafólk hækkaði mest, um 11%, og afgreiðslu- og þjónustufólk næst mest, um rúm 10%.

Fréttablaðið birtir í dag frétt um árstekjur 15 forstjóra félaga í Kauphöllinni árið 2015 og samanburð við árið 2014. Niðurstaða blaðsins er að árstekjur þeirra hjá fyrirtækjunum hafi að meðaltali hækkað um 13,3% og hafi hækkanir verið á bilinu 2% til 46%. Á þessum hækkunum eru eflaust margvíslegar skýringar en líklegast er að miklum sveiflum í tekjum forstjóranna valdi óreglulegar og afkomutengdar greiðslur. Slíkar greiðslur geta ýmist hafa fallið niður milli ára, verið óbreyttar, breyst til hækkunar eða lækkunar eða greiddar á síðara árinu en ekki því fyrra. Þá eru dæmi um að afkomutengdar  greiðslur séu greiddar út á tilteknu ári vegna árangurs fleiri en eins árs.

Hagstofa Íslands birtir upplýsingar um launaþróun í formi launavísitalna. Aðferð hennar er að bera saman laun sömu einstaklinga í sömu störfum hjá sömu fyrirtækjum milli tveggja tímabila við mat á launabreytingum. Þegar launavísitölur hópa eru reiknaðar út er byggt á launahugtakinu regluleg laun, en það eru föst laun sem greidd eru við hverja launaútborgun. Ekki er byggt á greiðslum fyrir yfirvinnu eða öðrum óreglulegum greiðslum. Hagstofan hefur birt launavísitölur fyrir starfsstéttir frá árinu 2005 og eru nýjustu upplýsingar frá þriðja ársfjórðungi 2015.

undefined

Niðurstaða Hagstofunnar er að regluleg laun á almennum vinnumarkaði hafi hækkað að meðaltali um 102% frá árinu 2005 til þriðja ársfjórðungs 2015. Mest hækkaði skrifstofufólk, um 123%, þá verkafólk og afgreiðslufólk, um 115%, en stjórnendur hækkuðu minnst, um 78%, og sérfræðingar næst minnst, um 85%.