Stjórnendur 400 stærstu: Stöðugt ástand

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna heldur minnkandi umsvif í atvinnulífinu á næstunni. Mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu batnar nokkuð frá fyrri hluta ársins og væntingar eru um að staðan versni ekki mikið á næstu sex mánuðum. Könnunin hefur verið gerð ársfjórðungslega frá árinu 2006.

Skortur á starfsfólki er lítill, eins og verið hefur allt árið, og útlit fyrir áframhaldandi fækkun starfa á næstu sex mánuðum.

Fjárfestingar dragast saman milli ára, einkum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði við markmið Seðlabankans, þ.e. 2,5%, næstu 12 mánuði og 3,0% eftir tvö ár.

Mat á núverandi aðstæðum batnar
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hækkar nokkuð frá fyrri könnunum á árinu. 29% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 23% fyrir þremur mánuðum og 14% telja þær slæmar samanborið við 20% fyrir þremur mánuðum. Matið er lakast í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Litlar væntingar um bata eftir 6 mánuði
Stjórnendur hafa fremur litlar væntingar um að aðstæður verði betri eftir sex mánuði. 31% stjórnenda telur að aðstæður versni en 20% að þær batni. Matið er svipað í öllum atvinnugreinum.

 

Lítill skortur á starfsfólki
Lítill skortur er á starfsfólki og hafa þær aðstæður ekki breyst á árinu. Einungis 17% stjórnenda finna fyrir skorti samanborið við 22% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er mestur í sjávarútvegi.

Starfsmönnum gæti fækkað um 700 á næstu 6 mánuðum
25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 14% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 24% við fækkun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 0,5% á næstu sex mánuðum en fyrir þremur mánuðum gáfu niðurstöður til kynna áform um 0,4% fækkun. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 700 á næstu sex mánuðum. Fjölgunin er  200 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin 900 hjá þeim sem áforma fækkun.

Stjórnendur fjármálafyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en þar á eftir koma stjórnendur í byggingarstarfsemi og verslun. Fækkun starfa virðist framundan í flestum atvinnugreinum nema ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Vænta verðbólgu á markmiði
Verðbólguvæntingar stjórnenda fara minnkandi og búast þeir að jafnaði við verðbólgu við markmið Seðlabankans að ári liðnu. Verðbólguvæntingarnar voru síðast við markmiðið árið 2017 og hafa síðan verið á bilinu 3-4%.

Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0% eftir tvö ár og einnig eftir fimm ár.

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 1,1% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 1,7%.

Vaxtalækkanir í kortunum
Stjórnendur vænta þess að Seðlabankinn lækki vexti á næstunni. Meginvextir (stýrivextir) bankans voru 3,5% á könnunartímabilinu og búast þeir við 3,1% stýrivöxtum eftir eitt ár.

Vænta stöðugs gengis krónunnar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar veikist um 1,7% á næstu 12 mánuðum.

Fjárfestingar minnka á árinu
Könnunin getur til kynna samdrátt fjárfestinga í atvinnulífinu milli áranna 2018 og 2019. 32% stjórnenda búast við að fjárfestingar fyrirtækjanna dragist saman milli ára en 21% býst við aukningu. Horfur eru auknum fjárfestingum í sjávarútvegi milli áranna en minnkandi í öllum öðrum atvinnugreinum sem könnunin nær til, mest í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Innan við helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu
60% stjórnenda telja ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu en 40% telja það nokkurt vandamál. Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrri könnunum þar sem þjónustufyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki eiga erfiðast með að mæta aukinni eftirspurn.

Hagnaður svipaður milli ára

Í heild búast stjórnendur við svipuðum hagnaði fyrirtækjanna á þessu ári og því síðasta. 29% stjórnenda búast við meiri hagnaði, 27% minni og 44% að hann verði svipaður.

Óbreytt eftirspurn á innanlandsmarkaði
Stjórnendur búast við svipaðri innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum og verið hefur undanfarið. 22% stjórnenda búast við aukningu, 18% búast við samdrætti, en aðrir óbreyttri eftirspurn. Horfur eru betri á erlendum mörkuðum því 36% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn þar en 17% búast við samdrætti.

Launakostnaður hefur langmest áhrif á verðbólgu
Stjórnendur voru spurðir um þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu 6 mánuðum. Hækkun launakostnaðar vegur langþyngst þar sem 59% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni og 24% til viðbótar setja hann í annað sæti. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 20% stjórnenda telja að þau hafi mest áhrif og 22% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var hún gerð á tímabilinu 9. til 26. september 2019 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 425 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svaraði  201, þannig að svarhlutfall var 47%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.