Stjórnendur 400 stærstu í maí 2021: Stökkbreyttar væntingar

Ársfjórðungsleg könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu fór fram í maí og júníbyrjun 2021. Um miðjan maí var slakað á sóttvarnaraðgerðum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og 25. maí voru gerðar enn frekari tilslakanir. Takmörkunum gagnvart atvinnulífinu innanlands var þá að mestu aflétt og tilslakanir á landamærunum fólu í sér möguleika á margföldun ferðamanna. Könnunin ber þess glöggt vitni að tilslakanirnar hafa verið áhrifamiklar og afdrifaríkar fyrir efnahagslífið.

Óvenju mikill viðsnúningur í mati á aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, tekur sitt hæsta stökk frá upphafi þessara mælinga. Gildið hækkar um rúmlega 100 stig, úr 40 í 145, en áður var hæsta stökkið 70 stig í mars 2014. Rúm 40% stjórnenda töldu aðstæður góðar, svipað hlutfall hvorki góðar né slæmar en aðeins 16% að þær væru slæmar. Í öllum atvinnugreinunum töldu fleiri stjórnendur að staðan væri góð en slæm, en jákvæðast mat á aðstæðum var í þjónustugreinum og verslun.

Næstum allir stjórnendur vænta bata eftir 6 mánuði

Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði sýnir bjarta mynd og fær sitt hæsta gildi frá upphafi þessara mælinga, eða 191 þar sem 200 er hæsta gildi. Niðurstaðan sýnir að 84% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, 4% að þær verði verri en 12% að þær verði óbreyttar.

Víða skortur á starfsfólki

Skortur á starfsfólki minnkaði meira milli kannana en áður hefur gerst og tvöfaldaðist fjöldi fyrirtækja sem búa við skort. Nú telja 23% fyrirtækjanna skort fyrirliggjandi samanborið við 11% fyrir þremur mánuðum. Mestur skortur er í byggingarstarfsemi (60% fyrirtækja), þjónustu (32%) og ferðaþjónustu (28%).

Starfsmönnum á almennum markaði gæti fjölgað um 2.200 á næstu 6 mánuðum

Væntingar um betri tíð skila sér í áformum um mikla fjölgun starfsfólks á árinu.

26 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 38% stjórnenda búast við fjölgun starfsmanna, 9% við fækkun og rúmlega helmingur við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki könnunarfyrirtækjanna fjölgi um 1,8%. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um rúmlega 2.200 á næstu sex mánuðum, þ.e. til ársloka. Fjölgunin er 2.800 hjá fyrirtækjum sem sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkunin 600 hjá þeim sem búast við fækkun.

Stjórnendur í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en þar á eftir koma stjórnendur í þjónustu og verslun.

Vænta verðbólgu yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,5% og hækka úr 3,0% sem þær hafa verið undanfarið ár, en þar á undan höfðu legið við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru 3% eins og undanfarin ár.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Stjórnendur búast við verulegri aukningu innlendrar eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. 55% þeirra búast við aukningu, 42% að hún standi í stað og 3% að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem 69% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn, 28% óbreyttri stöðu en 3% við samdrætti.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er ársfjórðungsleg og framkvæmd hennar í höndum Gallup. Annað hvort skipti er könnunin ítarleg með 20 spurningum en hin skiptin er hún minni með 9 spurningum. Að þessu sinni var minni könnunin gerð á tímabilinu 12. maí til 4. júní 2021.

Í úrtaki voru 430 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 214, þannig að svarhlutfall var 50%. Niðurstöður eru flokkaðar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort það starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.