Stjórnarsáttmálinn myndi kosta um 90 milljarða á ári
Stjórnarsáttmálinn sem kynntur var í síðustu viku gefur fyrirheit um hvar áherslur ríkisstjórnarinnar munu liggja á kjörtímabilinu. Þessar áherslur verða settar skýrar fram í fjárlagafrumvarpi og fjármálaáætlun. Komist allt til framkvæmda sem lofað er í stjórnarsáttmála má gróflega áætla að árleg útgjöld ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja vaxi um 90 milljarða króna. Þá aukningu ber að meta í því ljósi að útgjöld ríkissjóðs eru nú þegar með því sem hæsta sem gerist meðal ríkja OECD, eða 40% af landsframleiðslu. Það blasir því við að aldrei verður hægt að hrinda öllu því í framkvæmd sem lofað er í sáttmálanum.
Í sáttmálanum er gert ráð fyrir að ein lengsta uppsveifla Íslandssögunnar muni teygja sig áfram yfir kjörtímabilið án mikilla áfalla og skerðinga á tekjum ríkissjóðs. Flokkarnir virðast samstíga um að auka útgjöld talsvert á tímabilinu. Ekki er hugað að hagræðingu í ríkisrekstri eða niðurgreiðslu skulda. Það er áhyggjuefni að ekki hafi verið dreginn meiri lærdómur af sögunni við gerð þessa sáttamála. Í ríkisfjármálum höfum við reglulega farið fram úr okkur í uppsveiflu og tekið það út með meiri samdrætti en annars þegar slaki myndast í hagkerfinu.
Stjórnarsáttmálinn er vegvísir. Raunverulegar áherslur munu birtast í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem væntanlegt er við þingsetningu í næstu viku og þar er mikilvægt að skoða heildarmyndina.
Áskorun framundan á vinnumarkaði
Komandi vetur verður prófsteinn nýrrar ríkisstjórnar enda eru erfiðar áskoranir framundan. Ber þar hæst að kjarasamningar 21.000 opinberra starfsmanna eru lausir og á það mun reyna hvort takist að skapa frið á vinnumarkaði samfara þeim samningum. Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er talað um að stjórnvöld muni beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi. Það er því fagnaðarefni að til standi að lækka tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald sem innlegg stjórnvalda í komandi kjaraviðræður. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir það.
Ísland áfram háskattaríki
Nánast hvergi meðal þróaðra ríkja eru skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hærri en á Íslandi. Allar skattalækkanir eru því kærkomnar svo framarlega sem stjórnvöld skapi rými til þeirra á útgjaldahliðinni. Í ljósi þessa harma Samtök atvinnulífsins að hvergi er minnst á forgangsröðun eða aðhald í rekstri ríkisins á komandi árum í nýjum stjórnarsáttmála. Það er því erfitt að sjá að mikið rými verði til frekari skattalækkana. Til að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins þurfa skattaálögur á fólk og fyrirtæki að lækka. Ef það gefst ekki svigrúm til skattalækkana í einni lengstu uppsveiflu Íslandssögunnar, hvenær þá? Mikilvægt er að hafa í huga að það voru skattahækkanir sem vörðuðu leiðina að hallalausum rekstri ríkisins eftir síðasta efnahagsáfall og þær skattahækkanir standa enn að mestu óhaggaðar. Varla verður sama leið farin í næstu niðursveiflu.
Mikilvægt að greiða áfram niður skuldir
Ein lífsbjörg okkar Íslendinga eftir niðursveifluna 2008 var hversu lítið skuldsettur ríkissjóður var. Það vekur því athygli hversu lítil áhersla er lögð á niðurgreiðslu skulda, en hvergi er minnst á slíkt í sáttmálanum. Vaxtakostnaður ríkisins er nú þegar sá þriðji hæsti meðal iðnríkja. Ísland greiðir 4% af landsframleiðslu í vexti á meðan Grikkir greiða ekki nema 3,2% og Svíar greiða 0,4% í vaxtagreiðslur. Verði einskiptistekjur nýttar til niðurgreiðslu skulda þá gæti árlegur vaxtasparnaður ríkisins numið um 10 milljörðum. Huga verður að þessum staðreyndum í fjárlagafrumvarpinu.
Önnur mál sem gleymdust
Mikilvægt er að aukin áhersla verði lögð á forgangsröðun í ríkisrekstri á komandi árum enda hafa stjórnvöld úr gríðarlegum fjármunum að spila. Í ljósi þessa er það áhyggjuefni hversu sjaldan forgangsröðun er nefnd í stjórnarsáttmálanum. Talsverð tækifæri eru fólgin í því að nýta betur skattfé landsmanna. Í stjórnarsáttmálanum er aukin áhersla á geðheilbrigðismál, fjölgun hjúkrunarrýma, móttöku flóttamanna og innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk. Það eru allt góð dæmi um rétta forgangsröðun í útgjöldum hins opinbera. Rík þjóð á að hlúa vel að þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu. En til að unnt sé að gera betur í því þarf virkari forgangsröðun í ríkisrekstri.
Íslenska skattkerfið er flókið og óskilvirkt. Stjórnvöld ættu með réttu að stíga ákveðin skref á kjörtímabilinu til einföldunar á skattkerfinu, draga úr undanþágum og fækka skattþrepum. Áhersla á einföldun skattkerfis kemur hvergi fyrir í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þvert á móti eru þar ýmsar tillögur sem miða að því að flækja það.
Annað sem ekki eru nefnt í stjórnarsáttmálanum er mikilvægi þess að stjórnvöld stuðli að fjölbreyttu rekstrarformi þegar kemur að því að veita þjónustu sem ríkið fjármagnar, en einkarekstur er hvergi nefndur í sáttmálanum. Ísland ætti að fylgja fordæmi Norðurlanda og nýta kosti einkarekstrar í auknum mæli í rekstri í heilbrigðis- og menntamálum. Þá er hvergi rætt um styttingu gunnskóla eða endurskoðun á fjármögnunarlíkani háskóla til að skapa réttu hvatana og nýta betur þá fjármuni sem úr er að spila.
Að lokum
Efnahagsleg staða þjóðarbúsins er góð um þessar mundir. Ábyrg stjórn ríkisfjármála mun gegna lykilhlutverki á komandi árum í að viðhalda þeirri stöðu. Ábyrgðin er því mikil hjá nýrri ríkisstjórn. Í miðri uppsveiflu er mikilvægt að stjórnvöld búi í haginn á meðan tekjustofnar eru enn sterkir og skili ríflegum afgangi á fjárlögum. Loforð um verulega útgjaldaaukningu telst ekki ábyrg hagstjórn á toppi hagsveiflunnar.
Til umhugsunar eru reglulegar greinar á vef SA um brýn samfélagsmál.