Stefnir í að 2011 verði næst mesta brottflutningsár Íslendinga

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: "Fólksflutningar núna eru ekkert meiri en í venjulegu árferði. Þeir voru töluverðir árið 2009 og 2010 en það hefur stöðvast miðað við þann mikla brottflutning sem var áður. Þannig að við erum bara á svipuðu róli og var þá." Þetta er því miður ekki rétt hjá forsætisráðherra.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að brottfluttir umfram aðflutta hafi verið tæplega 1.400 á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 1.320 og erlendir voru 80. Ef fram heldur sem horfir verða brottfluttir Íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta 1700-1800 á árinu öllu. Ef svo fer verður árið 2011 næst mesta brottflutningsár Íslendinga í sögunni í fjölda einstaklinga talið. Einungis árið 2009 er hærra með tæplega 2.500 brottflutta Íslendinga umfram aðflutta en árið 2010 voru þeir 1.700.

Í lok september þessa árs voru íbúar landsins 319.090 og fjölgaði um 600 frá áramótum. Ef ekki hefði komið til 1.400 manna brottflutningur umfram aðflutta hefði fjölgunin numið 2.000.

Í kvöldfréttum RÚV - Sjónvarps var rætt við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, um málið. Hægt er að horfa á fréttina hér að neðan ásamt tengdu efni.

Tengt efni:

Umfjöllun RÚV 13. 12. 2011. Smelltu til að horfa

Íslendingar flytja til Noregs. Frétt RÚV 13.12. 2011 

Frétt Stöðvar 2 14. 12. 2011. Smelltu til að horfa 

Til Alþingis frá SA 13.12 2011: Virkjum tækifærin og rjúfum kyrrstöðuna

Höfum tapað tveimur og hálfum árgangi á síðustu 10 árum