Stafrænt Ísland í forgang

Á tímum örra breytinga eiga stjórnvöld að setja hagnýtingu á upplýsingatækni í forgang. Annars er hætt við því að hið opinbera verði eftirbátur fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnsýslan á að einbeita sér að þörfum notenda sinna og hitta þá fyrir þar sem þeir eru. Með rafrænni stjórnsýslu fær fólk og fyrirtæki rafrænt aðgengi að opinberum upplýsingum og þjónustu og aðkomu að ákvarðanatöku. Þannig má stytta afgreiðslutíma, lækka kostnað, auka aðgengi að þjónustu og fækka mistökum við veitingu þjónustu.

Ýmislegt sem varðar almenning miklu er auglýst á vettvangi sem fáir skoða eða nýta sér, t.d. í Lögbirtingablaðinu. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nú starfrækt verkefnastofan Stafrænt Ísland sem miðar m.a. að því að byggja upp og styrkja stafræna innviði og auka og efla þjónustu við almenning og fyrirtæki í gegnum vefinn island.is. Verkefnin eru margvísleg, t.d. miðlæg þjónustugátt, Straumurinn, þar sem hægt verður að nálgast þjónustu hins opinbera á einfaldan og fljótvirkan hátt. Straumurinn mun gera upplýsingum um einstaklinga kleift að flæða úr einu kerfi í annað á öruggan máta og þar verður sjálfsafgreiðslugátt þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta sinnt helstu erindum sínum við opinbera aðila á einum stað á netinu.  

Hérlendis hefur verið til stefna stjórnvalda um stafræna stjórnsýslu í meira en 20 ár en samt erum við ekki komin lengra en raun ber vitni. Stafrænt Ísland er skref í rétta átt en skrefið er stigið óþarflega seint. Þegar leitað er að fyrirmyndum um rafrænar lausnir í opinberri stjórnsýslu ætti einkum að horfa til Eistlands. Landið er til fyrirmyndar í óhefðbundinni hugsun og frjóu umhverfi nýsköpunarfyrirtækja. Eistar hófu að rafvæða stjórnsýslu sína um 1990. Skráning nýrra fyrirtækja, greiðsla skatta og gjalda, skráning bifreiða eða yfirlit heilsufarsupplýsinga er t.d. rafrænt að öllu leyti. Í Eistlandi má finna eitt stafrænasta samfélag í heimi þar sem eitt kerfi tengir alla saman.

Þegar Eistar öðluðust sjálfstæði við fall Sovétríkjanna misstu þeir í rauninni alla stjórnsýslu sína. Þeir vildu norrænt velferðarkerfi en höfðu ekki efni á því. Í stað þess að endurgera sovéska stjórnsýslu beittu þeir nýrri hugsun og lausnum. Þeir byggðu stafræna stjórnsýslu. Þar sem þeir höfðu ekki efni á því að vera með velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd juku þeir þjónustuna með þessum hætti.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Ísland gangi jafnlangt í stafrænni stjórnsýslu og Eistar hafa gert. Með því að hafa alla opinbera þjónustu eingöngu aðgengilega í gegnum rafræna þjónustugátt sparast bæði tími og peningar.

Eistar fullyrða til dæmis að með því að geta undirritað skjöl og stjórnsýslugögn rafrænt sparist um 2% af virði landsframleiðslu árlega. Að sama skapi geti venjulegur eistneskur borgari sparað sér um fimm daga á ári í bið hjá ýmsum opinberum stofnunum. Loks eru þriðjungi færri á biðlista eftir sjúkrahúsþjónustu. Fólk hefur aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum og getur ráðstafað þeim að vild. Eistar hafa jafnframt upplifað mjög jákvæðar félagslegar hliðarverkanir, sérstaklega hjá konum. Þær hafa löngum haft fjölskylduábyrgðina á sínum herðum og verið heimavinnandi í umönnunarhlutverki. Með því að geta sótt alla þjónustu rafrænt hefur það sparað þeim tíma og opnað á fleiri möguleika. Jafnrétti hefur þar af leiðandi aukist. Ávinningurinn á daglegt líf einstaklinga og rekstur fyrirtækja er óumdeilanlegur.

Í stað þess að breyta öllu íslenska stjórnkerfinu eins og það er í dag er nauðsynlegt að hugsa grunninn upp á nýtt á stafrænan máta. Það er kostnaðarsamt að breyta hverju skjali eða eyðublaði þannig að mögulegt sé að fylla það út rafrænt. Á Íslandi eru fyrirtæki sem eru brautryðjendur í því að hugsa gömul kerfi á nýjan hátt. Kara Connect er gott dæmi. Fyrirtækið býður upp á tengingu skjólstæðinga við fagaðila m.a. í heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu þar sem öll samskipti fara fram á netinu. Forsvarsmenn Köru hafa hins vegar lýst áhyggjum sínum af því að tregða í stjórnkerfinu valdi því að ekki verði af tækninýjungum á þessu sviði. Félagið hefur því brugðið á það ráð að bjóða þjónustu sína utan Íslands.

Í skipulags- og byggingarmálum má sjá fyrir sér mikla möguleika til stafrænna framfara. Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun voru sameinuð í eina ríkisstofnun um áramótin. Með lögunum er stofnuninni gert skylt að starfrækja rafrænan gagnagrunn og byggingagátt sem sveitarfélögin skulu nota við útgáfu byggingarleyfa. Þetta er mjög mikilvægt skref og til þess fallið að stytta uppbyggingartíma íbúða og minnka kostnað. Á hinn bóginn er samræmi í útgáfu byggingarleyfa og stjórnsýslu byggingamála ekki tryggt á milli sveitarfélaga. Úr því þarf að bæta. Það er betra fyrir þá sem nýta sér stjórnkerfið að sækja sér upplýsingar á einn stað í stað þess að eiga við marga aðila hins opinbera. Það verður að tryggja samræmi á milli sveitarfélaga þannig að hlutverk og eftirlit byggingafulltrúa og stjórnsýsla byggingamála sé með sambærilegum hætti á öllu landinu. Það má gera með því að allir notist við sömu gáttina.

Eðlilegt er að með auknum tækniframförum aukist kröfur borgaranna um að stjórnvöld feti sömu leið. Dæmið frá Eistlandi sýnir okkur að við erum að heltast úr lestinni. Eistland er tæplega fjórfalt stærra en Ísland sé tekið mið af fólksfjölda. Það má halda því fram að öll tæknileg umgjörð og vinnsla ætti því að vera talsvert einfaldari hérlendis. Það þarf bara að taka ákvörðun um að setja málið í forgang. Árið 2020 er ekki eðlilegt að fólk og fyrirtæki bíði í röðum hjá ríkisstofnunum sem loka kl. 15. Við eigum að vera komin lengra. Ef stjórnvöld treysta sér ekki í verkefni ættu þau að leita til fyrirtækja sem eru  brautryðjendur á hinum stafræna vettvangi. Ávinningurinn fyrir samfélagið í heild er ótvíræður.

Heiðrún Björk Gísladóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA.