Spes skattur
Það verður af nógu að taka fyrir nýja ríkisstjórn þótt staðan í efnahagsmálum hafi sjaldan verið betri. Skattamál eru í miklu uppáhaldi hjá tveimur stjórnarflokkum, þótt þeir hafi reyndar gjörólíka sýn á þann málaflokk. Skattar eru auðvitað alltaf íþyngjandi fyrir þá sem þurfa að greiða þá, en þeir geta verið misíþyngjandi og misskaðlegir fyrir ýmsa aðra aðila en greiðandann.
Dæmi um einn slíkan skatt er svokallaður bankaskattur sem settur var á árið 2010 með lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Fjármálafyrirtæki þurfa að borga 0,376% skatt af skuldum sínum umfram 50 milljarða. Það kann ekki að hljóma sem ýkja hátt hlutfall, en skoðum það aðeins nánar. Ef meðalfjármögnunarkostnaður fjármálafyrirtækis er t.d. 3,76% þá hækkar skatturinn fjármögnunarkostnað viðkomandi fyrirtækis um 10%. Þar við bætist að skatturinn er lagður á árlega á sömu skuldirnar, aftur og aftur, en ekki t.d. aðeins á þá fjárhæð sem skuldir fjármálafyrirtækja hafa vaxið um á árinu.
Hærri fjármögnunarkostnaður fjármálafyrirtækja leiðir óhjákvæmilega til þess að þeir geta ekki boðið viðskiptavinum sínum jafn góð kjör. Hærri fjármögnunarkostnaður fyrirtækja spornar gegn auknum fjárfestingum sem leiðir til þess að störf verði færri en ella. Hærri fjármögnunarkostnaður einstaklinga hækkar húsnæðiskostnað sem gerir það að verkum að færri geta farið út á húsnæðismarkaðinn og erfiðara verður fyrir fólk að stækka við sig.
Í 1. gr. laganna segir að markmið þeirra sé meðal annars að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins. Þá gefur nafnið til kynna að um tímabundin skatt sé að ræða, þótt það sé reyndar ekkert sólarlagsákvæði í lögunum. Staða ríkisfjármála er að mestu leyti mjög sterk, þótt auðvitað sé brýnt að halda áfram að greiða niður skuldir. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé fyrir löngu búið að bæta ríkinu upp þann kostnað sem féll á það vegna hrunsins.
Vandamálið er hins vegar að það er fátt jafn varanlegt eins og tímabundnar ráðstafanir hins opinbera. Eftir inngöngu Íslands í EFTA árið 1970 var sérstakt vörugjald lagt á. Árið 1975 var svo bætt í með sérstöku tímabundu vörugjaldi. Vörugjaldið hætti svo að vera sérstakt og tímabundið og tók u-beygju í að verða almennt vörugjald sem ekki var afnumið fyrr en árið 2015, eftir 45 ár.
Menn ættu því ekki að halda niðri í sér andanum á meðan beðið er eftir afnámi sérstaks bankaskatts þótt hann sé jafn vondur og skaðlegur eins og rakið er að ofan. Ný ríkisstjórn mætti halda þeirri reglu í heiðri að skattar séu þeim mun betri eftir því sem þeir eru færri, lægri, flatari, einfaldari og lausari við undanþágur.
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.