Sóknarfæri í Evrópusjóði
Í tengslum við EES samninginn var á sínum tíma samið um sérstakan þróunarsjóð sem fjármagnaður yrði af EFTA ríkjunum og notaður til að jafna lífskjör og aðstöðumun innan fátækari aðildarríkja ESB. Fyrstu fimm árin úthlutaði sjóðurinn styrkjum auk þess að veita lán með niðurgreiddum vöxtum. Núverandi starfstímabil sjóðsins er frá árinu 1999 til loka þessa árs, 2003. Með breyttum starfsreglum einskorðar sjóðurinn starfsemi sína við styrki. Nýlega lauk samningum EFTA og ESB um aðgerðir vegna stækkunnar ESB og þá jafnframt EES. Samkomulag varð um að framlengja þróunarsjóðinn um önnur fimm ár með all nokkrum breytingum.
Hærri upphæð og breiðara starfssvið
EFTA ríkin samþykktu að greiða sem svarar til 600 milljóna evra á
fimm árum frá 1. maí á næsta ári. Jafnframt voru skilgreind
viðfangsefni sjóðsins látin ná til fleiri viðfangsefna. Þar
skiptir mestu að sjóðnum verður nú heimilt að styrkja verkefni sem
lúta að nýtingu og stjórn náttúruauðlinda (resource management).
Auk þessara 600 milljóna sem eru sameiginlegt framlag Íslands,
Noregs og Liechtenstein greiða Norðmenn aðrar 600 milljónir til
viðbótar á tímabilinu og verður þeim úthlutað sérstaklega en á
svipuðum forsendum og hinum. Að stórum hluta er um að ræða verkefni
sem Norðmenn kosta nú þegar í væntanlegum aðildarríkjum ESB.
Hvað verður styrkt?
Auk viðfangsefna undanfarinna ára verður lögð áhersla á
auðlindanýtingu sem tekur þá m.a. til útgerðar og fiskvinnslu. Þar
má tiltaka bætta nýtingu hráefnis í matvælaiðnaði almennt og
gæðaeftirlit. Verkefni á sviði vatnsnýtingar og orku ættu og að
falla undir ný viðfangsefni sjóðsins. Áberandi er hversu betur
norskum fyrirtækjum hefur á undanförnum árum gengið þátttaka í
verkefnum á vegum sjóðsins en íslenskum. Á þessu eru margar
skýringar en þó helst sú að viðfangsefnin hafa að miklu leyti verið
nær sérfræðisviði ýmissa norskra fyrirtækja. Má þar nefna viðhald
og endurbyggingu menningarverðmæta og margvísleg verkefni á sviði
umhverfisverndar og mengunarvarna. Íslensk fyrirtæki hafa tekið
þátt í verkefnum á sviði orkumála, svo sem í gegnum
jarðhitaskólann. Styrkirnir eru greiddir til aðildarríkja ESB sem
eru ábyrg fyrir úthlutun þeirra. Frumkvæðið að verkefnum kemur
yfirleitt frá sveitarstjórnum og geta þau snúist um lausnir hvort
heldur varða sveitarfélagið sjálft eða fyrirtæki innan þess. Við
úthlutun til einstakra verkefna er í öllu farið að útboðsreglum
EES, reglum um ríkisstyrki og samkeppnislöggjöf þar að lútandi.
Möguleikar Íslands
Uppbyggingar- og þróunarsjóðir ESB hafa í gegnum árin stuðlað að
lífskjarajöfnuði á milli aðildarríkjanna. Þessi sjóðir eru reknir á
svipuðum forsendum og þróunarsjóður EFTA, þ.e. skilgreind ríki eða
landssvæði njóta framlaga úr sjóðunum en aðrir geta ekki sótt um
styrki. Fyrirtæki innan ESB í eigu Íslendinga eru fullgild sem
styrkþegar úr þessum sjóðum, ef þau uppfylla almenn skilyrði
sjóðanna svo sem um staðsetningu. Íslensk fyrirtæki bæði á
Frakklandi og Spáni hafa þannig notið aðstoðar frá sjóðum ESB við
uppbyggingu og endurnýjun. Hvað varðar önnur íslensk fyrirtæki geta
einstök fyrirtæki hugsanlega tengst frumkvæði að verkefnum með
óformlegum hætti, sem síðan verða boðin út á EES fáist til þeirra
fjármagn.
Almennt séð geta íslensk fyrirtæki hins vegar boðið í þau verkefni sem boðin eru út á vegum sjóðanna, líkt og í önnur verkefni sem fara í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu. Reynslan sýnir hins vegar að mjög fá íslensk fyrirtæki gera tilboð. Almennar upplýsingar um útboð á Evrópska efnahagssvæðinu er að finna á sérstakri vefsíðu á vegum ESB, eins konar leitarvél.
Sjóðurinn 1999-2003 ennþá opinn
Samkvæmt heimildum í Brussel hefur enn ekki verið úthlutað öllu
ráðstöfunarfé vegna starfstímabilsins 1999 til 2003. Umsóknir eru
afgreiddar til áramóta en vegna töluverðs úrvinnslutíma þurfa
umsóknir að berast fyrir 1. ágúst. Upplýsingar um möguleg verkefni
er hægt að fá hjá Per Bondesen, framkvæmdastjóra sjóðsins og
Tómasi N. Möller í sendiráði Íslands í Brussel.
Per.bondesen@secrbru.efta.be,
s: +32 2 286 1711
Tomas.N.Moller@utn.stjr.is, s: +32 2 286 1700.