Sóknarfæri á sviði jarðhita
Innan Evrópusambandsins eru 12,8% raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, en hérlendis er þetta hlutfall 99,9% og 99,2% í Noregi, sem eru þau lönd sem Glitnir skilgreinir sem sinn heimamarkað. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Árna Magnússonar forstöðumanns orkumála hjá Glitni á fundi Samtaka atvinnulífsins um loftslagsmál og atvinnulífið á Grand Hótel Reykjavík. Árni fjallaði um áherslu Glitnis á fjármálaþjónustu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, með sérstakri áherslu á jarðhita. Hann sagði bankann geta boðið umheiminum aðgang að gríðarlegri þekkingu á þessu sviði en áætlað er að eingöngu um 5% af virkjanlegum jarðhitasvæðum séu nú í notkun og sóknarfærin því mikil. Glitnir er um þessar mundir þátttandi í verkefnum á þessu sviði m.a. í Bandaríkjunum, Kína, Evrópu og Suður-Ameríku.