Sneiðar verða ekki stærri en kakan
Brýnasta verkefni Samtaka atvinnulífsins, að mati Eyjólfs Árna Rafnssonar, nýs formanns SA, er að ná sátt um nýtt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd því núverandi skipan þjóni hvorki hagsmunum launafólks né atvinnulífs. Mikilvægt sé að tryggja kaupmáttaraukningu þegar laun eru hækkuð hverju sinni. Hann kallar eftir auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, að tryggingargjaldið lækki og að stjórnendur í atvinnulífi líti í eigin barm til að bæta framleiðni í rekstri. Þetta kemur m.a. fram í ítarlegu viðtali ViðskiptaMoggans við Eyjólf.
Viðtalið má lesa hér að neðan:
Eyjólfur Árni Rafnsson, fyrrverandi forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits, var kjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins fyrir um viku. Hann tók við embættinu af Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, sem sat í stóli formanns í fjögur ár. „Þótt nýr maður sé kominn í brúna verða engar kollsteypur á stefnunni heldur verður haldið áfram á þeirri góðu braut sem samtökin hafa fetað undanfarin ár. Meginhlutverk okkar er að þjónusta vel þau tvö þúsund fyrirtæki sem standa að samtökunum og gæta hagsmuna þeirra,“ segir hann.
Nýr formaður þekkir ágætlega til starfa samtakanna. Hann hefur setið í stjórn þeirra í þrjú ár, verið í framkvæmdastjórn í eitt ár og undanfarin þrjú gegnt embætti varaformanns Samtaka iðnaðarins. Eyjólfur Árni mun segja sig úr stjórn Samtaka iðnaðarins á næsta fundi. „Það er ekki æskilegt að vera með of marga hatta,“ segir hann.
Í ljósi þess að Eyjólfur Árni minnist á „fjölda hatta“ er ekki úr vegi að spyrja hvort hann hafi ekki einmitt nægan tíma til að sinna stjórnarformennsku í Samtökum atvinnulífsins því hann sagði starfi sínu lausu hjá Mannviti í árslok 2015. „Það má með sanni segja að ég hafi skapað mér tíma til að sinna öðrum verkum eins og þeim sem ég hef sinnt á vettvangi Samtaka iðnaðarins. Að því sögðu var ég viðloðandi rekstur Mannvits fram að lokum síðasta árs, var hægt og bítandi að draga mig úr rekstrinum,“ segir hann. Eyjólfur Árni hefur unnið sem stjórnarmaður og sjálfstætt starfandi ráðgjafi að undanförnu. Á meðal verkefna sem hann hefur tekið að sér er að kanna fyrir hönd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kosti þess að koma á fót Borgarlínu. Um er að ræða hágæða almenningssamgöngur sem flytja fólk á milli helstu kjarna sveitarfélaganna og valinna þróunarsvæða.
Ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum til að ná sátt um nýtt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd því núverandi skipan þjónar hvorki hagsmunum launafólks né atvinnulífs
Sneiðar verða ekki stærri en kakan
Spurður um brýnustu verkefni Samtaka atvinnulífsins um þessar mundir nefnir hann vinnu um breytt og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga sem staðið hefur síðastliðin fimm ár. „Ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum til að ná sátt um nýtt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd því núverandi skipan þjónar hvorki hagsmunum launafólks né atvinnulífs. Norræna vinnumarkaðslíkanið hefur gefið góða raun og tryggt efnahagslegan stöðugleika og jafna og samfellda kaupmáttaraukningu. Í einföldu máli snýst nýtt vinnumarkaðslíkan um þá heildarsýn að við séum öll á sama báti með sameiginleg markmið um að hámarka efnahagslegan árangur af störfum okkar og að skipta því sem er til skiptanna á sem jafnastan hátt. Sneiðar kökunnar samanlagt geta aldrei orðið stærri en kakan sem er til skiptanna. Kjarninn er að tryggja kaupmáttaraukningu þegar laun eru hækkuð hverju sinni. Íslenska kjarasamningalíkanið hefur leitt af sér launahækkanir sem atvinnulífið getur ekki staðið undir vegna svokallaðs höfrungahlaups, þar sem laun á milli einstakra atvinnugreina eða starfsgreina hækka á víxl og svo verðlag, og því batna kjör almennings ekki. Launafólk nýtur góðs af breyttu fyrirkomulagi því að ef laun hækka of mikið og verðbólga fer á skrið styttist í að gengi krónunnar veikist og skuldir heimilanna snarhækki. Um er að ræða sameiginlega hagsmuni atvinnulífs og heimilanna í landinu,“ segir Eyjólfur Árni.
Nokkur gagnrýni hefur verið uppi í samfélaginu um þá stefnumörkun heildarsamtaka launafólks og vinnuveitenda að taka upp ný vinnubrögð, og ganga undir skammstöfuninni SALEK. Eyjólfur Árni segir mikilvægt að samtökin eigi góð og opinská samtöl við málsaðila til að koma sjónarmiðum sínum vel á framfæri enda sé til mikils að vinna. Hann bendir á ASÍ og SA hafi náð samkomulagi fyrir um mánuði og vonir standi til að samningar á almenna vinnumarkaðnum gildi til ársloka 2018 eins og upphaflega var áformað. SA hafi því ráðrúm til að undirbúa jarðveginn.
Stjórnendur verða að líta í eigin barm
Í grunninn fjallar SALEK um að laun hækki ekki umfram vöxt framleiðni í viðskiptalífinu. Og þá vaknar spurningin; hvað geta stjórnvöld gert til þess að leggja sitt af mörk um að bættri framleiðni í atvinnulífinu? Fram kom í skýrslu McKinsey árið 2012 að framleiðni vinnuafls hér á landi væri 20% minni en í helstu nágrannalöndum Íslands. Háa landsframleiðslu Íslands á hvern íbúa má að miklu leyti rekja til meiri atvinnuþátttöku og lengri vinnutíma en þekkist í flestum öðrum ríkjum heimsins.
Við megum ekki falla í þá gryfju að afsaka skort á framleiðni með því að við séum fámenn.
Eyjólfur Árni svarar spurningunni á þá vegu að stjórnendur fyrirtækja verði að líta í eigin barm. „Oft og tíðum er vandinn stjórnunarlegs eðlis,“ segir hann. Blaðamaður hefur orð á því að Ísland sé fámennt og fjarri erlendum mörkuðum, sem dragi úr framleiðni. „Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Það má ekki fjalla um þá staðreynd af ósanngirni. Við megum samt sem áður ekki falla í þá gryfju að afsaka skort á framleiðni með því að við séum fámenn. Stjórnendur verða líka að spyrja sig: Hvað getum við gert betur í rekstrinum?“ segir Eyjólfur Árni.
Blaðamaður nefnir að tortryggni gæti meðal almennings í garð viðskiptalífsins og að ugglaust hafi nýleg uppljóstrun um að kaup þýsks banka á hlut í Búnaðarbankanum árið 2002 hafi verið yfirvarp aukið vantrú almennings gagnvart atvinnulífinu. Eyjólfi Árna þykir líklegt að um tímabundið bakslag verði um að ræða en nefnir að fólk beri almennt meira traust til viðskiptalífsins en lesa megi úr almennri umræðu. „Traust fólks til atvinnulífsins er almennt gott,“ segir hann og vísar til þess að skoðanakannanir sýni að fólk treysti almennt vinnuveitanda sínum vel. „Það skiptir sköpum og ef það traust væri ekki fyrir hendi væri voðinn vís. Ég held þess vegna að oft sé gert meira úr skorti á trausti í garð viðskiptalífsins en efni standa til. Enn fremur ef upp koma einstaka mál sem varða einstaka fyrirtæki eða kaupsýslumenn er ósanngjarnt að heimfæra þau á viðskiptalífið eins og það leggur sig,“ segir hann.
Að þessu sögðu rifjar blaðamaður upp að fráfarandi formaður SA vitnaði í Einar Ásmundsson, fyrsta ritstjóra Frjálsrar verzlunar, í kveðjuræðu sinni þar sem gerð er tilraun til að fanga nauðsyn heiðarleika í viðskiptum:
„Kaupsýslumaðurinn vinnur þjóð sinni vel. Hann framfleytir sér ekki á kjaftæði og loforðum. Hann greiðir gjald fyrir hvern skilding, sem honum áskotnast. Hann vinnur. Enginn vinnur meira en hann. Hann veit að ef atvinnurekstur hans á að vera heilbrigður og traustur þarf hann að njóta velvildar fjöldans.“
Eyjólfur Árni segir að þarna sé vel að orði komist.
Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu
Eyjólfur Árni kallar eftir því að í heilbrigðiskerfinu verði einkarekstur nýttur í ríkari mæli til þess að bæta þjónustuna, stytta biðlista og draga úr kostnaði. Hann bendir á að um sé að ræða stærsta kostnaðarlið hins opinbera og því myndi bættur heilbrigðisrekstur bæta afkomu hins opinbera. „Það er eðlilegt að horft sé til þessa málaflokks og tekin yfirveguð umræða um hann,“ segir hann. „Margir rugla saman hugtökunum einkarekstri og einkavæðingu. Einkavæðing væri ef fyrirtæki myndu sinna heilbrigðisþjónustu sem nú er á hendi hins opinbera og sjúklingar myndu þurfa að standa straum af kostnaðinum að öllu leyti sjálfir. Ég er ekki talsmaður þess. Einkarekstur er að fyrirtæki sinnir tilteknum verkefnum, svo sem heilsugæslu, liðskiptaaðgerðum og hjartaþræðingum, en hið opinbera stendur straum af kostnaðinum. Það sem slíkt myndi hafa í för með sér er að biðlistar myndu styttast, þeir sem veita þjónustu þurfa ávallt að leita leiða til að hagræða og samfélagið myndi njóta góðs af starfskröftum þeirra sem annars sætu heima og biðu eftir að komast í aðgerð.
Það hefur gefið góða raun hér á landi að semja um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan í Salahverfi er til að mynda einkarekin og rekstur hennar hefur gengið vel. Þeir sem leita til hennar fá góða þjónustu og hið opinbera sparar fjármagn. Þessu er ekki haldið til haga í nógu miklum mæli í opinberri umræðu. Til að undirstrika hve vel sú heilsugæsla hefur gengið var fyrir skemmstu samið um einkarekstur þriggja annarra heilsugæsla.“
Blaðamaður vekur athygli á að einkareknum heilsugæslum sé ekki heimilt að greiða hluthöfum arð. „Það er rétt. Sú ákvörðun dregur úr hvata við að leggja fé í þennan rekstur. Það er röng nálgun enda bætir rekstur sem þessi samfélagið og því ætti frekar að leita leiða til að stuðla að frekari fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu. Arður er ekki af hinu illa. Arður er einfaldlega vextir af fjármagni sem bundið er í rekstri fyrirtækja. Um arð gilda sömu lögmál og vaxtagreiðslur af innstæðum eða ríkisskuldabréfum nema hvað hluthafar taka mun meiri áhættu með sitt fjármagn,“ segir hann.
Víðar í opinberum rekstri má finna tækifæri þar sem hið opinbera getur átt í samstarfi við einkaaðila. Eyjólfur Árni leggur til að hið opinbera fari í auknum mæli í samstarf við einkaaðila á uppbyggingu samgöngumannvirkja (e. Public Private Partnership, eða PPP). Það myndi m.a. draga úr sveiflum í fjárframlögum til málaflokksins, sem nú fylgja því hvernig árar í efnahagslífinu. Við slíkar aðstæður myndu þeir sem nota mannvirkin og þeir sem sinna viðhaldi á þeim vera betur í stakk búnir til að gera langtíma áætlanir. „Þegar vel árar myndi ríkið leggja til fé við uppbyggingu samgangna en þegar verr árar myndu fjárfestar, eins og til dæmis lífeyrissjóðir, leggja til fjármagn. Árleg framlög til vegakerfisins eru nú 1/3 af því sem þau voru fyrir hrun. Samstarfsfjármögnun myndi draga úr sveiflum í fjármagni sem veitt er til málaflokksins og spara samfélaginu fjármagn þegar upp er staðið,“ segir hann.
Of sterk króna bitnar á útflutningsgreinum landsins. En það eru einmitt þær sem draga vagninn, tryggja efnahagslegar framfarir og leggja grunn að betri lífskjörum.
Sterk króna bitnar á útflutningi
Þá beinum við sjónum okkar að krónunni. Gengi krónu gagnvart evru hefur styrkst um 18% á tveimur árum. Sé horft til raungengis á mælikvarða launa blasir við erfið staða. Um er að ræða mælistiku á samkeppnishæfni íslenskt atvinnulífs við útlönd. Björgólfur vakti athygli á því í kveðjuræðu sinni að undanfarin fjögur ár hefði raungengi á mælikvarða launa hækkað um 64%. Þessa miklu hækkun má rekja til þess að krónan hefur styrkst og samið hefur verið um umtalsverðar launahækkanir. „Of sterk króna,“ segir Eyjólfur Árni, „bitnar á útflutningsgreinum landsins. En það eru einmitt þær sem draga vagninn, tryggja efnahagslegar framfarir og leggja grunn að betri lífskjörum.“ Í einföldu máli má segja að útflutningsgreinar komi með gjaldeyri til landsins sem landsmenn nýti til að festa kaup á innfluttri vöru.
Eyjólfur Árni vonast til að afnám gjaldeyrishafta dragi úr gengisstyrkingu krónu. Enn fremur vill hann sjá hækkandi hlutfall eigna lífeyrissjóðanna fjárfest erlendis. Hlutfallið er um þessar mundir 23% en var 30% fyrir hrun, þannig að langvarandi gjaldeyrishöftin hafa lækkað hlutfallið verulega. Óvarlegt sé þó að þvinga lífeyrissjóðina til að auka fjárfestingar erlendis, því hagsmunir þeirra séu fólgnir í að hækka hlutfallið smám saman út frá sjónarmiðum áhættudreifingar. Að hans sögn er fyrirsjáanlegt að verulegir fjármunir muni flytjast frá Íslandi í erlenda fjárfestingakosti á komandi misserum. Útflæði fjármagns af þessu sökum mun eflaust sporna gegn styrkingu krónunnar „Þessu þarf að stýra vel, þetta snýst um að ná utan um verkefnið og forða krónunni frá því að ýmist rísa of skarpt eða falla hratt,“ segir hann.
Að þessu sögðu vill Eyjólfur Árni ekki skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil. „Ég hef ekki komið auga á rök fyrir því að önnur mynt kæmi Íslandi betur en krónan,“ segir hann. Atvinnulífið hefur lengi kvartað yfir háum stýrivöxtum. „Samtökin kalla eftir stýrivaxtalækkun enda verðbólguvæntingar við markmið og verðbólgu verið of spáð. Áframhaldandi hátt vaxtastig og of sterk króna mun grafa undan fjármálastöðugleika. Jafnframt keppa útflutningsgreinarnar ekki á jafnréttisgrundvelli þegar fjármagnið er mun dýrara hér á landi en í samkeppnislöndum okkar,“ segir hann.
Tryggingagjaldið lækki
Forsvarsmenn í atvinnulífinu hafa lengi talað um mikilvægi þess að lækka tryggingagjaldið. Það nemur nú 6,85% og leggst ofan á launagreiðslur. „Ég vil sjá það lækka enn frekar,“ segir Eyjólfur Árni. Árið 2007 var það 5,34%. Gjaldið var hækkað mikið í kjölfar hrunsins, eða í 8,65%, til að mæta kostnaði vegna aukins atvinnuleysis. Atvinnustigið er um þessar mundir með besta móti og stefna stjórnvöld á að lækka tryggingagjaldið á kjörtímabilinu. „Ég ætla að treysta að svo verði, en verð að viðurkenna að mér þykir það taka of langan tíma,“ segir hann.
„Hækkun tryggingagjaldsins á sínum tíma vegna atvinnuleysis hefur orðið að almennri tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þessi skattheimta bitnar mest á mannaflsfrekum fyrirtækjum og er steinn í vegi þess að hægt sé að byggja upp blómleg þekkingarfyrirtæki hér á landi. Skattheimtan ýtir því ekki undir að ráða starfsfólk til að sinna nýsköpun og þróun heldur dregur úr slíkum ráðningum.
Ég þekki það vel frá því ég starfaði fyrir Mannvit. Þegar tryggingagjaldið var hækkað verulega eftir hrun urðum við að segja upp 20 manns vegna þess að skattheimtan jókst líklega nálægt hundrað milljónum króna við hækkunina. Það var því ekkert annað hægt að gera í stöðunni. Þessi skattur kom sér því afar illa við fyrirtækið og þá sem misstu vinnuna,“ segir hann.
Viðtalið birtist í ViðskiptaMogganum fimmtudaginn 6. apríl 2017.