Smekkleysa formanns Verkalýðsfélags Akraness

Samtök atvinnulífsins hafa fengið sterk viðbrögð við birtingu auglýsingar sem sýnir hvernig of miklar launahækkanir hér á landi á undanförnum árum hafa leitt af sér mikla verðbólgu og á endanum engu skilað til aukins kaupmáttar íslenskra heimila. Þar er jafnframt á myndrænan hátt sett fram greining Seðlabanka Íslands á því hver þróun gæti orðið hér á landi í umhverfi mun minni launabreytinga en hingað til hefur verið raunin.

Sú mynd sem þar blasir við er talsvert önnur en sú sem við höfum búið við undanfarin ár og áratugi. Verðbólga yrði mun minni, hagvöxtur mun meiri, störfum myndi fjölga umtalsvert og kaupmáttur íslenskra heimila einnig. Í stuttu máli yrði þróun efnahagsmála hér á landi með svipuðum hætti og nágrannar okkar á Norðurlöndunum hafa búið við undanfarna áratugi. Í ljósi þessa hafa SA hvatt til samstillts átaks til að kveða verðbólguna niður. Það skili skuldsettum heimilum og fyrirtækjum mestum ávinningi til skemmri og lengri tíma litið.

Á traustum grunni 

Því sætir hörð gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á auglýsinguna nokkurri undrun. Þær staðreyndir sem þar eru settar fram eru allar byggðar á opinberum gögnum um launa- og verðlagsþróun hér á landi og á Norðurlöndunum, sem og á fyrrnefndri greiningu Seðlabanka Íslands. Þeirri gagnrýni sem þar er að finna er ekki beint gegn launþegum fremur en atvinnurekendum eða stjórnvöldum heldur felst fyrst og fremst í sér gagnrýni á það ástand sem við höfum hér búið við og ábendingar um leiðir til úrbóta. Þessi gagnrýni er ekki ný af nálinni. Hana hafa fjölmargir aðilar á borð við Seðlabanka Íslands, OECD og Samstarfsvettvang um aukna hagsæld tekið undir svo dæmi séu tekin.

Sú gagnrýni sem sett hefur verið fram á auglýsingu SA af hálfu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu hafa í engu hrakið þennan einfalda sannleik. Of miklar launahækkanir hér á landi hafa leitt af sér of mikla verðbólgu og til lengri tíma litið grafið undan stöðugleika íslensku krónunnar. Það breytir engu hvort horft er til þróunar undanfarinna fimm, tíu eða tuttugu ára, eða enn lengra aftur ef því er að skipta. Myndin sem við blasir er hin sama. Þetta var einnig reynsla annarra Norðurlanda og þau hafa fyrir margt löngu síðan breytt vinnubrögðum sínum við gerð og framkvæmd kjarasamninga og uppskorið ríkuglega.

Margar ástæður

Að baki þeirri mynd sem hér er dregin upp búa fjölmargar ástæður. Launaskrið hefur verið allt of mikið og grafið undan forsendum þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið; áherslur í fjármálum hins opinbera hafa oftar en ekki kynt verðbólgubálið með umfangsmiklum skattalækkunum og stórauknum útgjöldum á tímum þenslu. Þessi þróun hefur síðan valdið miklu ójafnvægi í efnahagslífinu sem birst hefur í viðvarandi viðskiptahalla og að lokum gengislækkunum með reglulegu millibili. Þessi atburðarás hefur verið endurtekin á 7 til 10 ára fresti um áratuga skeið og veldur bæði atvinnurekendum og launafólki vonbrigðum. Í engu er verið að varpa ábygðinni á þróun mála alfarið á launafólk, atvinnurekendur bera líka sína ábyrgð ásamt ríki og sveitarfélögum.

Í ljósi þess að íslensk heimili og fyrirtæki eru mjög skuldug hafa Samtök atvinnulífsins lagt á það höfuðáherslu í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir að verðbólgan verði kveðin niður þannig að hægt sé að lækka vexti, leggja grunn að nýrri sókn í atvinnumálum, skapa ný störf og tryggja Íslendingum betri lífskjör. Heimilin skulda 2.000 milljarða króna og hvert prósentustig verðbólgunnar leggur 20 milljarða byrði á heimilin. Það er því til mikils að vinna að ná verðbólgunni niður.

Smekkleysa og rangt farið með

Í ályktun Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélagsins Framsýnar 22. nóvember er málflutningur Samtaka atvinnulífsins kallaður "ósmekklegur hræðsluáróður". Í stað þess að ræða málið efnislega er í ályktuninni gripið til ódýrra og ósmekklegra áróðursbragða þar sem hjólað er í fólk og dregin upp af því skrumskæld mynd.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur síðan gengið enn lengra og sett fram brot úr kvikmynd um einn illræmdasta einræðisherra sögunnar  fyrr og síðar með eigin textaskýringum þar sem atvinnurekendur eru settir í hlutverk nasista. Myndbútinn setti formaðurinn inn á samfélagsmiðla í gærkvöld og dreifði ánægður samkvæmt fréttum af uppátækinu. Þar fer formaðurinn niður á áður óþekkt plan í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Samtök atvinnulífsins eru hvenær sem er tilbúin í rökræðu um kjarasamninga og efnahagsmál en frábiðja sér slíka smekkleysu. 

Í pistli á vef Verkalýðsfélags Akraness í dag fer formaðurinn síðan rangt með þegar hann fullyrðir að verkafólk sem fái greidd laun samkvæmt umsömdum kauptöxtum hafi hækkað mun minna í launum en aðrir. Staðreyndin er sú að þessu er þveröfugt farið. Lágmarkslaunin hafa hækkað um 63,2% frá janúar 2008, eða úr 125.000 kr. í 204.000 kr. Lægsti kauptaxti hefur hækkað um 60,1% á sama tíma, úr 119.752 kr. í 191,752 kr. Launavísitalan hefur hækkað um 40,4% á sama tíma. Kaupmáttur lágmarkslaunanna hefur hækkað um 11% en kaupmáttur á mælikvarða launavísitölu hefur minnkað um 5%.

Við eigum val

Íslendingar eiga val um hvert leiðin liggur næstu árin. Ef rétt er á málum haldið er hægt að leggja hér grunn að velferð sem er sambærileg og hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Vandi þeirra var sá sami og við höfum glímt við, of miklar launabreytingar, of há verðbólga og afar óstöðugt og fallandi gengi viðkomandi gjaldmiðils. Þau brugðust við og hafa síðan fetað nýja slóð með hækkun launa í hægum skrefum yfir langan tíma sem hefur bætt lífskjör þeirra mun meira en Íslendingum hefur tekist með miklu meiri launahækkunum en þar tíðkast.

Það er hægt að snúa þróuninni við og innleiða hér norrænan árangur en til að svo megi verða þurfum við að fara að fordæmi frænda okkar og leggja áherslu á verðstöðugleika  og minnka sveiflur í efnahagslífinu. Það er ekki nóg að niðurstöður kjarsamninga séu í samræmi við efnahagslegar forsendur. Fyrirtækin þurfa að sýna ábyrgð og aga hvert um sig í ákvörðunum sínum um verð og laun. Til þess að ná árangri þarf samhent átak allra; aðila vinnumarkaðar, fyrirtækjanna, Seðlabankans og stjórnvalda.

Á mánudag munu aðilar setjast að samningaborðinu en samningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok mánaðar. SA hafa lagt á það áherslu að gerðir verði einfaldir kjarasamningar til skamms tíma en tíminn verði notaður vel fram til næsta hausts til að búa í haginn fyrir samninga til lengri tíma sem leggi grunn að bættum lífskjörum Íslendinga og sterkari stöðu íslenskra heimila og fyrirtækja.

Tengt efni:

Auglýsing SA: Betri lífskjör