Slakað á innflæðishöftum
Á föstudaginn síðasta tilkynnti Seðlabanki Íslands að sérstök bindiskylda á fjármagnsinnstreymi hafi verið lækkuð úr 40% í 20%. Telur Seðlabankinn að aðstæður hafi nú skapast til að slaka á innflæðishöftunum þar sem vaxtamunur gagnvart útlöndum hefur minnkað og gengi krónunnar veikst.
Óhætt er að taka undir það í ljósi þess að krónan hefur nú lækkað um 20% frá því hún reis sem hæst á seinasta ári, og skammtímavaxtamunur við Bandaríkin hefur t.a.m. lækkað úr 5,5% í 1,4%, frá því að höftin voru sett. Skrefið sem stigið var á föstudaginn er kærkomið og merkilegt fyrir þær sakir að aldrei áður hefur verið slakað á innflæðishöftunum frá því þau voru innleidd í júní 2016.
Ekki er ólíklegt að Seðlabankinn kjósi að lækka bindiskylduna niður í 0% í skrefum og að hér sé um fyrsta skref af nokkrum að ræða. Yrði slík aðgerð í anda þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og aðrir erlendir sérfræðingar hafa talað fyrir í þó nokkurn tíma, með þeim rökstuðningi að beitingu fjármagnshafta megi réttlæta í neyð en að sú neyð sé ekki til staðar í íslensku hagkerfi nú.
Breyttar aðstæður
Á komandi misserum þurfa Íslendingar að aðlagast breyttum veruleika þar sem tugprósenta fjölgun ferðamanna ár frá ári heyrir nú sögunni til. Krónan hefur veikst það sem af er ári, fjölgun ferðamanna verður líklega undir 5% í ár miðað við spár greiningaraðila og viðskiptaafgangurinn skreppur hratt saman.
Á sama tíma eru innlendir fjárfestar; einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir, að færa hátt á annað hundrað milljarða úr krónum í erlendan gjaldeyri eða fjárfestingar. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að ekki séu hindranir í vegi þeirra sem kjósa og vilja fjárfesta á Íslandi, sjá tækifæri hér á landi og vilja koma þeim í framkvæmd.
Fjármagnshöft draga úr framboði fjármagns, hækka grunnvexti á skuldabréfamarkaði og þar með fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja og heimila. Það er því fagnaðarefni fyrir fyrirtæki og heimili í landinu að nú loks séu skref stigin til að losa íslenskt hagkerfi úr höftum en á sama tíma mikilvægt að frekari skref verði stigin á næstu mánuðum.