Skýrsla um launaþróun 2006-2015

Út er komin skýrslan Í kjölfar kjarasamninga sem fjallar um launaþróun eftir samningssviðum og viðsemjendum á tímabilinu 2006 til 2015. Skýrslan er samstarfsverkefni þeirra heildarsamtaka á vinnumarkaði sem aðild eiga að Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (Salek). Skýrslan er sú þriðja í röðinni sem fjallar um viðfangsefnið en þær fyrri báru nafnið Í aðdraganda kjarasamninga og voru gefnar út í október 2013 og febrúar 2015, í þann mund er viðræður voru að hefjast um endurnýjun kjarasamninga.

Niðurstöður skýrslunnar eru ekki hluti af reglubundinni upplýsingagjöf Hagstofunnar heldur byggja á sérvinnslu úr gagnasafni stofnunarinnar samkvæmt beiðni Salek. Hagstofan birtir ársfjórðungslega upplýsingar um launaþróun í heild á almennum markaði, hjá ríkinu og sveitarfélögunum en í þessari skýrslu er miðað við nóvembermánuði ár hvert og upplýsingar eru mun ítarlegri en tíðkast.

80% hækkun frá 2006 – 6,7% að jafnaði á ári
Samkvæmt opinberum upplýsingum Hagstofunnar hækkuðu laun á almennum markaði um 79,6% frá 4. ársfjórðungi 2006 til 4. ársfjórðungs 2015. Á sama tímabili hækkuðu laun um 78,3% hjá ríkinu og um 78,6% hjá sveitarfélögunum. Með öðrum orðum var launaþróunin hnífjöfn milli þessara þriggja megin samningssviða á vinnumarkaði og var hækkunin að jafnaði 6,7% á ári.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að á síðasta ári, milli nóvember 2014 og nóvember 2015, hækkuðu laun félagsmanna aðildarfélaga ASÍ á almennum markaði að meðaltali um 8,8% og um 7,1% hjá félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu. Þar sem samningsgerð sveitarfélaga og viðsemjenda þeirra var ekki lokið í nóvember 2015 eru allur samanburður við sveitarfélögin ómarktækur og er því sleppt í þessari umfjöllun.

Félagsmenn aðildarfélaga BHM sem starfa hjá ríkinu hækkuðu að meðaltali um 10,8% á árinu og félagsmenn aðildarfélaga BSRB hjá ríkinu hækkuðu um 8,2%.

Framhaldsskólakennarar hækka langmest
Framhaldsskólakennarar hækkuðu langmest allra starfsstétta bæði árin 2014 og 2015, eða um 15,9% fyrra árið og 18,1% hið síðara. Laun þeirra hækkuðu um 100% frá nóvember 2006 samanborið við 78% hækkun á almennum vinnumarkaði. Rekja má skýringar á hækkun launa framhaldsskólakennara umfram aðra hópa til breytts vinnumat í kjarasamningi þeirra og tímabundinnar tengingar við launaþróun BHM-félaga.

Laun kvenna hækka umfram karla á öllum sviðum
Samkvæmt skýrslunni hefur launamunur kynjanna minnkað töluvert á tímabilinu sem er í takti við rannsókn Aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins sem kom út á síðasta ári. Niðurstaða skýrslunnar er að í öllum heildarsamtökum og samningssviðum hafa laun kvenna hækkað meira en karla á tímabilinu 2006 til 2015. Niðurstöður eru sýndar í meðfylgjandi súluriti. 

undefined

Regluleg laun hæst innan BHM
Í hópunum sem fjallað er um voru regluleg laun (án yfirvinnu) félagsmanna BHM hæst að meðaltali, 552 þús. kr. á mánuði, þar á eftir framhaldsskólakennara, 542 þús. kr. en meðaltal reglulegra launa á almennum vinnumarkaði var 428 þús. kr. 

Kaupmáttur launa
Kaupmáttur launa í heild var 11% meiri árið 2015 en árið 2006 skv. launavísitölu Hagstofunnar. Kaupmátturinn var 24% hærri hjá framhaldsskólakennurum, 16% hærri hjá félagsmönnum ASÍ sem starfa hjá ríkinu, 15% hærri hjá grunnskólakennurum, 12% hærri hjá félagsmönnum BHM hjá ríkinu, 10% hærri hjá félagsmönnum ASÍ á almennum markaði og 9% hærri hjá félagsmönnum BSRB sem starfa hjá ríkinu. Sem fyrr er ekki marktækt að gera samanburð við starfsmenn sveitarfélaga þar sem samningar þeirra höfðu ekki verið endurnýjaðir í nóvember 2015.

Launaþróun eftir starfsstéttum
Í skýrslunni er launaþróun skipt eftir starfsstéttum og atvinnugreinum. Þar kemur fram að verkafólk  hækkaði umtalsvert umfram aðrar starfsstéttir í öllum atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu 2006-2015. Í iðnaði hækkaði verkafólki um 93% samanborið við 60% hækkun stjórnenda sem hækkuðu minnst, í verslun hækkaði verkafólk um 89% og afgreiðslufólk um 81% samanborið við 62% hækkun stjórnenda og í samgöngum og flutningum hækkaði verkafólk einnig um 89% samanborið við 66% hækkun stjórnenda. Stjórnendur hækkuðu einnig minna en aðrar starfsstéttir hjá ríki og sveitarfélögum.

Sjá nánar:

Í kjölfar kjarasamninga (PDF)