Skýringar vegna hækkunar launavísitölu Hagstofunnar í október 2020

Hagstofan birti í gær launavísitölu októbermánaðar þar sem fram kom að hækkunin frá september var 0,7% og síðastliðna 12 mánuði 7,1%.

Þessar miklu hækkanir, bæði í október 2020 og síðastliðið ár, vekja eðlilega undrun.

Hækkunin í október á sér einkum tvær skýringar.

Í fyrsta lagi hækkar launavísitalan ávallt mikið í september og október ár hvert þótt engar kjarasamningsbundnar hækkanir eigi sér stað. Orsakirnar eru árstíðabundnar og liggja í því að álagsgreiðslur eru hærri í þessum mánuðum en mánuðina þar á undan sem að hluta einkennast af sumarleyfum og störfum afleysingafólks. Veigamesta skýring þessara árstíðabundnu hækkana launavísitölunnar er líklega í verslun og þjónustu þar sem afleysingafólk, t.d. sumarfólk, í ágúst og september fer úr fullu starfshlutfalli í hlutastörf þar sem álagsreiðslur vega þyngra en í fulla starfinu. Eftirvinnuálag starfsfólks í verslunum er dæmi um þetta.

Aðra skýringu má rekja til bónusgreiðslna, t.d. í fiskvinnu sem eru mun hærri í september og október en mánuðina þar á undan. Undanfarin áratug hefur launavísitalan hækkað um 0,7% í september og 0,4% í október, án þess að nokkrar miðlægar kjarasamningsbundnar hækkanir hafi átt sér stað.

Í öðru lagi kom endurnýjun nokkurra kjarasamninga inn í vísitöluna í október og voru þeir undantekningarlaust með afturvirkni. Í því felst að tvær launahækkanir, vegna ársins 2019 auk ársins 2020, komu til framkvæmda í október. Hagstofan mælir hækkanirnar þegar þær eru greiddar út en breytir ekki vísitölunni aftur í tímann. Nýlega endurnýjaðir kjarasamningar sem komu inn í launavísitölu októbermánaðar voru t.a.m. í stóriðju, grunnskólum og hjúkrun hjá sveitarfélögum og hjá starfsfólki fyrirtækja innan Samtaka sjálfstæðra skóla og Samtaka í velferðarþjónustu.

Munur milli almenna markaðarins og ríkis og sveitarfélaga

Hækkun launavísitölunnar í október um 7,1% síðustu 12 mánuði er í svipuðum takti og undanfarna sex mánuði þar sem hækkanirnar hafa verið á bilinu 6,3 til 6,8%. Hagstofan birtir einnig launavísitöluna eftir vinnumörkuðum, en með tveggja mánaða töf miðað við sjálfa launavísitöluna, þannig að nýjustu gildin eru fyrir ágúst 2020. Í ágúst 2020 hafði launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkað um 6,0%, 7,5% hjá ríkinu og 9,0% hjá sveitarfélögum.

Á þessum mun milli almenna markaðarins annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar eru nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi veldur afturvirkni samninga opinberra aðila því að tvær almennar hækkanir koma til framkvæmda hjá starfsfólki stéttarfélaga sem gerðu kjarasamninga á tímabilinu nóvember 2019 til 2020, en á því tímabili voru nær allir kjarasamningar endurnýjaðir í opinbera geiranum.

Í öðru lagi var viðbúið að prósentuhækkanir starfsmanna sveitarfélaga yrðu hærri en á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu þar sem hlutfallslega fleiri starfsmenn sveitarfélaga taka laun samkvæmt þeim kauptöxtum sem hækka mest samkvæmt Lífskjarasamningnum.

Í þriðja lagi voru hækkanir í samningum Eflingar við sveitarfélögin hærri en samkvæmt Lífskjarasamningnum.

Reynslan sýnir að launahækkanir eru ávallt meiri en lágmarkshækkanir kjarasamninga

Við gerð Lífskjarasamningsins áætluðu SA að laun á almennum markaði myndu hækka um rúmlega 4% vegna hækkunarinnar í apríl 2020. Þar af hækkaði verkafólk sem tekur laun samkvæmt umsömdum launatöxtum um 7% en aðrir um 3%. Það liggur því fyrir að laun á almennum vinnumarkaði hafi hækkað u.þ.b. 2% umfram bein áhrif launahækkana Lífskjarasamningsins.

Skýringarnar geta verið fjölmargar en reynsla undanfarinna áratuga sýnir að launahækkanir eru ávallt meiri en lágmarkshækkanir kjarasamninga, bæði í samdrætti og þenslu. Kjarasamningar og óformleg launakerfi hafa innbyggðar launahækkanir sem koma fram í mælingum Hagstofunnar en eru ekki hluti af mati sem gert er á kostnaðaráhrifum kjarasamninga. Þá kann mikil hlutfallshækkun lágmarkstaxta hafa haft ruðningsáhrif á laun hluta þess starfsfólks sem tekur laun á markaði rétt fyrir ofan eða í námunda við umsamda lágmarkstaxta.