Skýr skilaboð frá Seðlabankanum
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynnti í morgun ákvörðun um óbreytta stýrivexti sem eru 4,5%. Þrátt fyrir óbreytta vexti voru skilaboðin mjög skýr hjá bæði seðlabankastjóra og peningastefnunefndinni. Ef ákvarðanir á vinnumarkaði eða í ríkisfjármálum ógna verðstöðugleika þá munu stýrivextir hækka.
Seðlabankinn birti í fyrsta skipti myndband um efnahagshorfur og ákvörðun peningastefnunefndar. Myndbandið stuðlar að aukinni fræðslu og skilning almennings á peningastefnunni og því jákvætt skref af hálfu bankans. Í myndbandinu, sem er aðeins 1 mínúta og 40 sekúndur að lengd, fer seðlabankstjóri yfir horfurnar í íslensku efnahagslífi. Skilaboðin eru einföld og snúa að þeirri hættu sem framundan er.
„Nú slaknar á spennu í þjóðarbúskapnum en það er ekki samdráttur framundan nema við verðum fyrir nýjum áföllum. Verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm yrði slíkt áfall. Afleiðingin yrði hærri vextir og meira atvinnuleysi. Reynum að forða því.“
Kveður peningastefnunefnd jafnframt hart að orði í yfirlýsingu sinni þegar kemur að viðbrögðum sínum við óábyrgum kjarasamningum.
„Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum í markmið til lengri tíma. Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi árum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verðu í lægra atvinnustigi.“
Skilaboð Seðlabankans ber að taka alvarlega. Seðlabankinn hefur sýnt það í verki að hann bregst við ef niðurstaða kjarasamninga ógnar verðstöðugleika. Í aðdraganda kjarasamninga 2015 varaði Seðlabankinn við of miklum launahækkunum. Í kjölfarið voru vextir hækkaðir í þremur skrefum um 1,25%.
Uppsveiflu er lokið – hagvöxtur á mann dregst saman
Seðlabanki Íslands birti nýja hagvaxtarspá fyrir árin 2019-2021 í morgun samfara vaxtaákvörðun. Athygli vekur hversu mikla breytingu spá bankans tekur fyrir árið 2019 en í nóvember spáði bankinn 2,7% hagvexti en gerir nú ráð fyrir 1,8% hagvexti. Gangi spá Seðlabankans eftir er þetta minnsti hagvöxtur sem mælst hefur frá árinu 2012 og leiðrétt fyrir mannafjölda þá dregst hagvöxtur saman; það gerðist síðast á árinu 2010. Þessi breyting sem verður á spá bankans á aðeins þremur mánuðum er til marks um þann hraða viðsnúning sem verið hefur í íslensku hagkerfi – eru hér fjórir hagvísar dregnir fram.
1. Dregur úr umsvifum ferðaþjónustunnar.
Lakari hagvaxtarhorfur má fyrst og fremst rekja til ferðaþjónustunnar. Viðbúið var að draga myndi úr fjölda ferðamanna vegna samdráttar í flugþjónustu í kjölfar þess að WOW Air minnkaði flugvélaflota sinn. Nýbirt hagvaxtarspá Seðlabankans litast verulega af þessu áhrifum.
2. Kólnandi vinnumarkaður.
Síðustu ár hefur skort vinnuafl á Íslandi sem sést best í þeim fjölda erlendra starfsmanna sem hingað hafa komið og átt sinn þátt í því mannfjöldinn náði 350 þúsund á 1. ársfjórðungi síðasta árs. Nú stefnir í breytta tíma. Samkvæmt könnun Gallup eru í fyrsta sinn frá árinu 2012 fleiri fyrirtæki sem vilja fækka starfsfólki en fjölga á komandi misserum og gæti störfum því fækkað strax á fyrri hluta þessa árs.
3. Ytri aðstæður vinna ekki með okkur.
Ýmsir ytri þættir hafa á síðustu árum unnið með Íslendingum og gert hagkerfinu kleift að vaxa þrátt fyrir hækkandi launakostnað. Þeir þættir eru ekki líklegir til að þróast með sama hætti á komandi misserum. Hagvaxtarhorfur erlendis hafa versnað. Óvissa í kringum útgöngu Breta úr Evrópusambandinu auk neikvæðrar þróunar í Evrópu, sér í lagi skuldavandræða Ítalíu, hafa ásamt öðru aukið óvissu og hefur alþjóðlegt eignaverð gefið eftir. Þrátt fyrir lægra olíuverð síðari hluta ársins rýrnuðu viðskiptakjör landsins meira í fyrra en gert var ráð fyrir í nóvember.
4. Væntingar heimila og fyrirtækja í sögulegu lágmarki.
Staðan er viðkvæm í íslensku efnahagslífi og talsverð óvissa framundan. Endurspeglast sú óvissa í væntingum heimila og fyrirtækja sem eru í sögulega lágmarki miðað við könnun Gallup. Heimili halda að sér höndum við slíkar aðstæður og heimili fresta eða hinkra með frekari fjárfestingar. Óvissa getur því komið fram í minni vexti einkaneyslu og fjárfestingu.
Harður tónn í orðum seðlabankastjóra og yfirlýsingu peningastefnunefndar ber að taka alvarlega. Orðunum er beint til aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda þar sem sagt er nokkuð berum orðum að framhaldið sé í þeirra höndum. Aðlögun er framundan í íslensku efnahagslífi en hvort hún verði mjúk eða hörð veltur á framvindunni.
Tengt efni:
Horfðu á meginskilaboð seðlabankastjóra eftir vaxtaákvörðunina