Skemmra komin í markvissri mannauðsstjórnun
Fjölþjóðleg könnun Cranet samstarfsins bendir til þess að markviss mannauðsstjórnun sé skemmra á veg komin hér á landi en í samanburðarlöndunum. Þó er ljóst að miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum, ekki síst á sviði upplýsingamiðlunar til starfsmanna og frá starfsmönnum til stjórnenda.
Könnun með stuðningi SA
Háskólinn í Reykjavík er aðili að fjölþjóðlegu samstarfi, Cranet, þar sem fræðimenn við viðskiptaháskóla í 34 löndum gera samanburðarrannsóknir á mannauðsstjórnun. HR hefur nú gert könnun á stöðu íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði markvissrar mannauðsstjórnunar, í samstarfi við IMG Gallup og Háskóla Íslands, og með stuðningi Samtaka atvinnulífsins.
Markviss mannauðsstjórnun snýst m.a. um að skilgreina æskilega hegðun starfsmanna og nota svo kerfisbundnar aðferðir til að framkalla þessa hegðun. Dæmi um leiðir til að ná þessum árangri eru frammistöðumat, kerfisbundin umbun og vandað starfsmannaval.
Með þessari rannsókn er í fyrsta skipti mögulegt að bera saman stöðu mannauðsstjórnunar í íslenskum fyrirtækjum og erlendum, en niðurstöðurnar sýna m.a. að markviss mannauðsstjórnun er að sumu leyti skemmra á veg komin hér á landi en í samanburðarlöndunum. Í ítarlegri skýrslu eru íslensku niðurstöðurnar greindar sérstaklega og bornar saman við sambærilegar niðurstöður frá Danmörku, Bretlandi og Hollandi.
Rétt að hafa nokkur atriði í huga
Ýmis atriði er rétt að hafa í huga við mat á þessum niðurstöðum fyrir Ísland. Ber þar til dæmis að nefna að íslensku fyrirtækin sem taka þátt í könnuninni eru að jafnaði mun minni en erlendu samanburðarfyrirtækin, sem skýrir eflaust niðurstöðurnar að hluta. Oft er verið að skoða notkun formlegra kerfa og ferla sem síður á við um smærri fyrirtæki af eðlilegum ástæðum. Þá mælast breytileg laun lítið notuð á Íslandi í þessari könnun, sem kemur SA nokkuð á óvart. Í því sambandi má þó t.d. nefna að svörun var lítil frá sjávarútvegsfyrirtækjum, þar sem nær allt starfsfólk er á breytilegum launum.
Loks má geta þess að þótt íslensk fyrirtæki mælist verja lægra hlutfalli af veltu til þjálfunar en í öðrum löndum þá eru starfsmenntasjóðir atvinnulífsins trúlega ekki að mælast þar með, auk þess sem þjálfunin virðist vera á lægra verði hérlendis, sbr. mælingu um að alla vega stjórnendur og sérfræðingar í íslenskum fyrirtækjum eru að verja fleiri eða jafnmörgum dögum á ári í þjálfun og í samanburðarlöndunm.