Skattbyrði nánast hvergi meiri en á Íslandi
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, hélt erindi á Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins.
Í erindi Ásdísar var farið m.a. yfir áhrif skattahækkana undangenginna ára á vaxandi hagkerfi. Eðli máls samkvæmt aukast skatttekjur á góðæristímum og hafa tekjur ríkissjóðs vaxið mikið á síðastliðnum árum. Í stað þess að nýta svigrúmið til að vinda ofan af nýlegum skattahækkunum hefur auknum tekjum fremur verið varið í aukin útgjöld hins opinbera og eftir stendur að tekjuauki vegna nýrra skatta sem lagðir hafa verið á fyrirtækin frá árinu 2008 nemur um 85 ma.kr. Er svo kom komið að skatttekjur hins opinbera nálgast það sem mest var fyrir hrun og eru ekki aðeins háar í sögulegum heldur einnig alþjóðlegum samanburði. Skattbyrði er nánast hvergi meiri meðal þróaðara ríkja og skyldi engan undra því hún stendur undir opinberum útgjöldum sem einnig eru með því hæsta sem þekkist innan OECD.
Aukin skattheimta hefur að meginþunga lagst á fyrirtæki og hefur skattbyrði þeirra aukist síðustu ár. Skattbyrði fyrirtæki að undanskildum þrotabúum er verulega fyrir ofan meðaltal OECD ríkja en við höfum ekki alltaf verið í þeirri stöðu en árinu 2003 var skattbyrðin einna lægst á Íslandi. Þessi stefna var mörkuð á Íslandi á sama tíma og margar þjóðir lögðu aukna áherslu á að bæta samkeppnisumhverfi atvinnulífsins og leituðust fremur við að lækka skatta en að hækka þá.
En hver borgar þessa skatta á endanum? Það er ekki endilega svo að einstaklingar greiði minna séu fyrirtækin látin greiða meira. Að lokum eru skattar ávallt bornir af einstaklingum þ.e. eigendum, launþegum eða viðskiptavinum og er spurning einungis hvernig þær byrðar dreifast.
Góð skattkerfi einkennast af einfaldleika, gagnsæi, skilvirkni og fyrirsjáanleika og þó stigin hafi verið skref í rétta átt hér á landi er mikil þörf á frekari umbótum á skattkerfinu. Fyrst og fremst þarf að vinda ofan af þeim miklu skattahækkunum sem ráðist var í eftir hrun en það verður ekki gert nema með umtalsvert meira aðhaldi á útgjaldahlið. Minnka þarf flækjustig og ráðast í gagngerðar breytingar á toll- og neysluskattskerfinu, draga hækkun tryggingagjalds til baka og lækka jaðarskatta.
Þessar breytingar væru allar til þess fallnar að minnka kostnað við skattheimtu, auka samkeppni atvinnulífs og kaupmátt einstaklinga og lágmarka það allratap sem skattkerfið óhjákvæmilega veldur íslensku þjóðarbúi.
Skattbyrði fyrirtækja á Íslandi er sem fyrr segir ein sú mesta meðal OECD ríkja. Ofmælt var á skattadegi Deloitte að skattbyrði fyrirtækja væri hvergi hærri en hér á landi, en skekkjan fólst einkum í því að áhrif þrotabúa á skatttekjur ríkisins voru vanmetin. Eftir stendur að skattbyrði fyrirtækja á Íslandi er einna hæst meðal OECD ríkja og hefur aukist hlutfallslega mest hér á landi síðustu ár.
Kynningu Ásdísar má nálgast hér að neðan: