Skattbyrði á Íslandi sú þriðja hæsta í Evrópu
Skattbyrði á Íslandi er sú þriðja mesta í Evrópu og er einungis meiri í Danmörku og Svíþjóð en hér á landi. Þetta má lesa út úr nýjum tölum frá Hagstofu Evrópu, Eurostat, að teknu tilliti til fyrirkomulags lífeyrisgreiðslna. Sé hlutfallið leiðrétt samkvæmt því þá nam það 33,1% árið 2015, samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
„Skattbyrði á Íslandi er mikil samanborið við aðrar þjóðir þegar leiðrétt er fyrir því að á Íslandi er sjóðsöfnunarkerfi en ekki gegnumstreymiskerfi eins og í flestum löndum í kringum okkur,“ segir Ólafur Garðar Halldórsson, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, í samtali við blaðið.
Þegar búið er að leiðrétta fyrir þessum mismuni þá er Ísland í 3. sæti í Evrópu þegar kemur að skattbyrði, eins og sjá má á myndinni.
Ísland er einnig í 3. sæti þegar bornar eru saman tölur frá Norðurlöndunum en einungis Danmörk og Svíþjóð erum með meiri skattbyrði en Ísland. Lægstu skattbyrðina bera lönd í Austur-Evrópu en þar á meðal eru Litháen, Slóvakía, Tékkland og Pólland.
„Það er ljóst þegar litið er á tölurnar að skattbyrði er einna hæst á Íslandi á meðal ríkja EES og lítið svigrúm er til skattahækkana. Ríkisstjórnin sem tekst vonandi að mynda á næstunni ætti að einbeita sér að því að draga úr skattbyrði og gæta aðhalds á útgjaldahliðinni,“ segir Ólafur.
Sjá nánar í Morgunblaðinu 29. nóvember 2016