SGS aflýsir atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun
Starfsgreinasamband Íslands hefur stöðvað atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem staðið hefur yfir frá 23. mars. Mun því ekki koma til verkfalla frá og með 10. apríl nk. eins og boðað hafði verið. Er þetta niðurstaða sambandsins í kjölfar dóms Félagsdóms sem féll í gær í máli Samtaka atvinnulífsins gegn Rafiðnaðarsambandi Íslands vegna verkfallsboðunar gegn Ríkisútvarpinu. Hvert og eitt aðildarfélag SGS mun nú hefja undirbúning að atkvæðagreiðslu um verkfall og kemur fram á heimasíðu SGS að þetta muni fresta boðuðum aðgerðum um 2-3 vikur. Þessar aðgerðir ná ekki til Flóabandalagsins, Eflingar, Hlífar og VSFK.
Dómur Félagsdóms og afstaða Samtaka atvinnulífsins til sameiginlegrar atkvæðagreiðslu stéttarfélaga um verkfallsboðun á ekki að koma SGS á óvart. Í dómum Félagsdóms frá 2011 í málum nr. 1/2011 og 2/2011, sem SA höfðuðu gegn Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna AFLs annars vegar og Drífanda hins vegar, kemur skýrt fram sú afstaða SA að sameiginleg atkvæðagreiðsla stéttarfélaga sé andstæð lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Verkfallsboðun AFLs og Drífanda var þá dæmd ólögmæt af öðrum ástæðum en í kjölfarið fóru stéttarfélögin í sjálfstæða atkvæðagreiðslu hvort um sig í samræmi við lög.
Á vinnuréttarvef ASÍ kemur fram að það sé ekki á valdi sambanda stéttarfélaga að boða verkfall og einnig segir skýrt á vef ASÍ að félagsmönnum stéttarfélags sé óheimilt að framselja vald til verkfallsboðunar. Það kom því á óvart að SGS færi af stað með sameiginlega atkvæðagreiðslu sem vitað var frá upphafi að ekki stæðist lög.