Sérstaða Íslands í loftslagsmálum
Á föstudag var birtur í París útdráttur úr skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Útdrátturinn nær einungis til fyrsta hluta skýrslunnar og fjallar um eðlisfræðilegar ástæður loftslagsbreytinga. Skýrslan í heild verður birt síðar á árinu. Í öðrum hluta skýrslunnar verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga, hvernig unnt sé að laga sig að þeim og hvaða þættir séu viðkvæmastir fyrir gróðurhúsaáhrifum. Í þriðja hluta skýrslunnar verður svo fjallað um möguleika þess að draga úr loftslagsbreytingum.
Orsakir breytinga
Sex ár eru liðin frá því síðasta skýrsla nefndarinnar kom út og það kemur ekki á óvart að í skýrslunni nú sé kveðið fastar að orði þegar höfundar hennar komast að þeirri niðurstöðu að mannkynið hafi með starfsemi sinni valdið breytingum á loftslagi. Þær eru hins vegar fyrst og fremst raktar til brennslu jarðefnaeldsneytis, landbúnaðar og breytinga á landnotkun.
Hvað tekur við eftir 2012?
Alþjóðasamfélagið hefur fyrir þó nokkru áttað sig á þessum breytingum og til þess að draga úr þeim og áhrifum þeirra var loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna gerður árið 1992 en þar var kveðið á um almennar aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Árið 1997 náðu svo ríkin samkomulagi um svokallaða Kyoto - bókun við loftslagsamninginn þar sem ákveðið var að útstreymi frá iðnríkjunum skyldi vera 5,2% minna að meðaltali á árunum 2008 - 2012 en það var á viðmiðunarárinu 1990.
Kyoto - bókunin tók gildi árið 2005 þegar nægilega mörg ríki höfðu fullgilt hana en vandinn er sá að nokkur stór iðnríki hafa ekki fullgilt hana auk þess sem engar kvaðir eru lögð á þróunarríki þar sem útstreymi eykst hraðast.
Nú er hafið á vegum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna ferli sem ætlað er að leiða til niðurstöðu um það hvað taka skuli við eftir 2012. Ekki er ljóst til hvers það mun leiða en Evrópusambandið hefur boðað 20% samdrátt á útstreymi gróðurhúsalofttegunda til 2020 (frá 1990) og allt að 30% ef önnur ríki setja sér sama markmið. Aðgerðir ESB beinast að því að draga úr útstreymi við orkuframleiðslu úr jarðefnaeldsneyti, auka orkusparnað og leggja aukna áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og orkugjafa sem ekki valda útstreymi.
Sérstaða Íslands
Vandinn sem við er að etja er fyrst og fremst tilkominn vegna brennslu á kolum, olíu og jarðgasi. Ísland hefur að þessu leyti mikla sérstöðu vegna þess að raforkuframleiðsla hér á landi veldur ekki útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Þetta hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt og með sérstakri samþykkt við Kyoto - bókunina var Íslandi heimilað að auka útstreymi vegna einstakra iðnaðarvera um 1,6 milljónir tonna af koltvísýringi að meðaltali á árunum 2008 -12. Ástæða þess að þessar heimildir voru veittar eru einfaldlega þær að í stað þess að orka til iðjuveranna yrði framleidd úr endurnýjanlegum orkulindum mátti búast við því að hún yrði framleidd með orku úr jarðefnaeldsneyti annars staðar. Þannig yrðu umhverfisáhrif af uppbyggingu þessara iðjuvera annars staðar mun meiri en hér á landi. Þetta staðfesti Halldór Þorgeirsson einn af æðstu yfirmönnum á skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í viðtali við Ríkisútvarpið sl. föstudag en þar sagði hann m.a.:
"Það er alveg ljóst að það skiptir máli að framleitt tonn af áli á Íslandi felur í sér miklu minni áhrif á veðurfarskerfin heldur en almennt gerist í heiminum því það er mikið um það enn þá að ál sé framleitt með bruna kola sem er raunverulega miklu meira vandamál en álframleiðsla á Íslandi."
Árangur við álframleiðslu
Mikill árangur hefur að auki náðst hér á landi við að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu áls. Árið 1990 var útstreymið um 6,5 tonn af koldíoxíði á hvert tonn af áli en árið 2006 hafði það minnkað í 1,7 tonn af koldíoxíði á hvert áltonn. Útstreymið nú er því einungis rúmur fjórðungur af því sem það var árið 1990 og með því besta sem þekkist í heiminum í dag. Árangur þessi hefur náðst með tæknilegum framförum og samvinnu við stjórnvöld sem hafa þrýst á fyrirtækin að ná þessum árangri.
Eftirspurn mun aukast
Álverin hér á landi eru í fremstu röð og það er gerð krafa um það af stjórnvöldum að þau beiti bestu fáanlegu tækni og haldi sér í fremstu röð. Enginn vafi er á því að þessi fyrirtæki munu uppfylla hér eftir sem hingað til strangar kröfur um mengunarvarnir og að þróunin mun áfram verða sú að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá þessum iðnaði á næstu árum og áratugum. Í þessu samhengi er rétt að benda á að álframleiðslan sjálf fellur ekki undir útstreymistilskipun Evrópusambandsins en mun hugsanlega gera það eftir 2012 og ESB hefur ekki gert kröfur umfram þær sem gerðar hafa verið hér á landi. Fyrst og fremst óttast menn að þessi framleiðsla flytjist til þeirra ríkja sem ekki gera strangar kröfur um mengunarvarnir og hafa ekki tekið á sig skuldbindingar samkvæmt loftslagssamningnum og Kyoto - bókuninni vegna þess að það er viðurkennt að eftirspurn eftir áli í heiminum mun halda áfram að aukast.
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi
Ef litið er til útstreymis gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2004 þá var um 54% þess tilkomið vegna eldisneytisbrennslu í samgöngum, fiskveiðum og iðnaði (frá vélum, tækjum o.fl.). Á næstu árum munu verða gerðar mun stífari kröfur um útstreymi frá þessum aðilum en þessi þróun mun því miður ganga hægt yfir vegna þess að mörg þessara tækja eru ætluð til margra ára og jafnvel áratuga notkunar. Eins er unnt að draga úr útstreymi með greiðari samgöngum, styttingu vegalengda milli staða, skipulagi byggðar og svo framvegis.
Enginn vafi er á að bæði einstaklingar og atvinnulíf munu finna fyrir auknum kröfum um að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Atvinnulíf á Íslandi stendur almennt vel að vígi á þessu sviði og mun gera það áfram.