Seltjarnarnesbær undirritar sáttmála um samfélagsábyrgð
Seltjarnarnesbær hefur skrifað undir Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Seltjarnarnesbær er fyrsta bæjarfélagið á Íslandi til að skrifa undir sáttmálann og skipar sér þar með í röð framsækinna og ábyrgra bæjarfélaga víðs vegar um heiminn.
Global Compact Sameinuðu þjóðanna er öflugasta framtakið á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni. Alls hafa um fjórtán þúsund aðilar skrifað undir Global Compact, þar af eru tæplega tíu þúsund fyrirtæki og um fjögur þúsund ólíkir aðilar sem stefna að sama marki, borgir, bæjarfélög, háskólar, félagasamtök og fleiri.
„Við stefnum að því að Seltjarnarnes verði í fremstu röð meðal vistvænna sveitarfélaga á Íslandi."
Í frétt Seltjarnarnesbæjar segir að stjórnendur Seltjarnarnesbæjar hafi á liðnum árum lagt ríka áherslu á samfélagsábyrgð og hafi ákvarðanir bæjarstjórnar tekið mið af því. Bæjarstjórn Seltjarnarness hafi til að mynda verið meðvituð um ábyrgð á umhverfi sínu hvort sem það varði mannauð eða umhverfi. Ennfremur vaxi þeim sjónarmiðum ásmegin á meðal bæjarbúa að taka beri samfélagsábyrgð föstum tökum og vinna eigi markvisst að innleiðingu góðra stjórnarhátta í þeim anda. Ábyrg innkaupastefna sé dæmi um slíka ábyrgð.
„Við stefnum að því að Seltjarnarnes verði í fremstu röð meðal vistvænna sveitarfélaga á Íslandi. Siðferðileg rök hníga að því að sveitarfélögum beri að græða þau spor sem þau setja á samfélagið og umhverfi þess. Samfélagsábyrgð snertir alla þætti mannlífsins og snýr að öllum grunninum í starfsháttum sveitarfélagsins, “ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.
,,Árlegar greiningar á meðal starfsmanna og íbúa hafa sýnt að starfsmenn okkar eru ánægðir í starfi og að íbúarnir telja bæinn sinn vera fjölskylduvænt samfélag. Þessar jákvæðu niðurstöður mega hins vegar ekki verða okkur yfirvarp þannig að við sláum slöku við. Þvert á móti þurfum við að setja okkur ný og metnaðarfull markmið og því taldi bæjarstjórn Seltjarnarness ástæðu til að skerpa á stefnumótuninni. Með verkefninu um samfélagsábyrgð vilja stjórnendur bæjarins auka enn á ánægju starfsmanna og íbúa og færast nær sjálfbærri þróun. Þau verkefni sem hér eru mörkuð eru aðeins upphafið að nýrri vegferð. “
Rúmlega 20 íslenskir aðilar hafa undirritað Global Compact á Íslandi og mun þeim fjölga á næstu vikum. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact en Sameinuðu þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum árið 2000 eftir að Kofi Annan lagði til við viðskiptaleiðtoga heimsins í Davos í Sviss að atvinnulífið og Sameinuðu þjóðirnar gerðu með sér sáttmála um ábyrgt atvinnulíf.
Um er að ræða 10 viðmið sem aðilar sáttmálans setja sér að fara eftir, hann er alþjóðlega viðurkenndur og með því að skrifa undir Global Compact er hægt að gera gera viðskiptavinum, birgjum og opinberum aðilum grein fyrir samfélagsstefnu þess sem skrifar undir. Í vaxandi mæli er það nauðsynleg forsenda þess að viðskipti geti átt sér stað.
Meðfylgjandi mynd var tekin að lokinni undirskrift Seltjarnarnesbæjar. Frá vinstri eru Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Podium sem sér um vinnu við Global Compact viðmiðin, Árni Einarsson, forseti bæjarstjórnar, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar og Halldóri Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Tengt efni: