Seðlabankinn með „öll spil á hendi”
Þrátt fyrir aukna verðbólgu mátti ekki merkja sérstaklega harðan tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans þegar tilkynnt var um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta bankans í morgun. Meginvextir bankans standa því í 1%. Verðbólga mælist meiri og virðist ætla að vera þrálátari en vænst var og því telur nefndin nauðsynlegt að bregðast við nú.
Verðbólguvæntingar hafa einnig aukist sem endurspeglar að líkindum raunþróunina að undanförnu, en væntingar haldast oft í hendur við mælda verðbólgu sem nú stendur í 4,6%. Þá spáir bankinn því að verðbólga verði ekki komin niður að verðbólgumarkmiði bankans fyrr en á miðju næsta ári. Áður var talið að það myndi verða í lok þessa árs.
Þrátt fyrir þessar áhyggjur Seðlabankans litast yfirlýsing nefndarinnar ekki af eintómri svartsýni. Af henni má ráða að helsti áhrifaþáttur til hækkunar vaxta hafi verið væntingar um aukinn hagvöxt á komandi misserum sem og jákvæðari hagtölur á seinustu mánuðum en vænst var.
„Gríðarlega miklar” launahækkanir í miklu atvinnuleysi
Þrátt fyrir að slakinn í hagkerfinu sé ef til vill minni en talið var er atvinnuleysi enn nálægt sögulegum hæðum. Seðlabankinn telur það líklega hafa náð hámarki, en fleiri fyrirtæki sjá nú fram á ráðningar en uppsagnir á næstu mánuðum. Enn eru þó horfur á talsvert miklu atvinnuleysi næstu misserin og er gert ráð fyrir að það verði um tveimur prósentum meira á árinu 2023 en áætlanir gerðu ráð fyrir áður en farsóttin skall á. Seðlabankastjóri sagði að nefndin myndi beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja verðstöðugleika, óháð atvinnuleysisstigi. Enda ber Seðlabanka Íslands ekki skylda til að horfa til stöðunnar á vinnumarkaði við vaxtaákvarðanir umfram möguleg áhrif launabreytinga á verðstöðugleika.
Í því samhengi benti Seðlabankastjóri á að launahækkanir að undanförnu hefðu verið „gríðarlega miklar” og að af einhverjum ástæðum telji „Íslendingar að við getum alltaf hækkað laun miklu meira en aðrar þjóðir.” Ef þróun á vinnumarkaði ógnar verðstöðugleika verður nefndin tilneydd að bregðast við.
Launahækkanir fá aukið vægi í umfjöllun bankans
Hingað til hefur fremur lítið borið á umræðu hjá nefndinni um þær miklu launahækkanir sem hafa átt sér stað í kreppunni eins og SA hafa áður bent á. Atvinnurekendur hafa aftur á móti nefnt launakostnað sem afgerandi stærsta áhrifaþáttinn til hækkunar verðlags í könnunum SA og Seðlabankans og ætti því ekki að koma á óvart að íþyngjandi launakostnaður fari senn að hafa áhrif til hækkunar verðlags hjá innlendum fyrirtækjum.
Þær miklu launahækkanir sem mælast virðast loks hafa fengið aukið vægi hjá nefndinni en mikil hækkun launa er nú nefnd sem áhrifaþáttur verðbólgu, auk gengisveikingar krónu á seinasta ári og húsnæðisverðshækkana. Verðhækkanir á húsnæðismarkaði má þó að hluta rekja til launahækkana. Þannig hafa verið færð rök fyrir því að húsnæðisverð hafi hækkað í takti við undirliggjandi þætti, svo sem laun og vaxtastig, og því þurfi ekki að hafa áhyggjur af eignaverðsbólu enn sem komið er.
Engu að síður hefur launaþróun verið einkar óvenjuleg hérlendis í ljósi efnahagsástandsins og því eðlilegt að efasemdir séu uppi um hversu mikil innistæða sé fyrir húsnæðisverðshækkunum í raun og veru. Hlutfall fyrstu kaupenda á markaði hefur aldrei verið hærra og taka þarf tillit til þess að skertir tekjumöguleikar vegna slæms efnahagsástands eða vaxtahækkanir vegna aukins verðbólguþrýstings gætu hamlað greiðslugetu þessa hóps þegar fram í sækir. Áhyggjur af þessari þróun hafa leitt af sér vangaveltur um það hvort Fjármálastöðugleikanefnd gæti ákveðið að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða, svo sem auknum kröfum varðandi veðsetningarhlutfall fasteignalána, til að draga úr eftirspurn á fasteignamarkaði.
Framboð húsnæðis hefur einnig áhrif á jafnvægi á markaði
Jafnvægi á fasteignamarkaði veltur þó einnig á þróun á framboðshliðinni. Rætt hefur verið um mögulegan framboðsskort á húsnæði á komandi árum, enda hefur hægst nokkuð á nýbyggingum og ekki er gert ráð fyrir verulega auknum krafti í íbúðafjárfestingu á næstu árum samkvæmt nýrri spá Seðlabankans. Staðan á fasteignamarkaði ætti að vera byggingaraðilum hvati til aukinnar fjárfestingar í íbúðarhúsnæði en eins og Seðlabankastjóri benti á í morgun fer fjárfesting ekki eingöngu eftir horfum um eftirspurn heldur þurfa skipulagsyfirvöld að tryggja nægt framboð lóða svo unnt sé að bregðast við markaðsaðstæðum.
Seðlabankastjóri kom því skýrt á framfæri að bankinn er með öll spil á hendi til að bregðast við þáttum sem ógnað gætu verðstöðugleika, svo sem launahækkunum og þróun á fasteignamarkaði. Hann nefndi einnig að þeim tækjum yrði beitt óháð því hvert atvinnuleysisstig yrði. Vaxtahækkunin nú í morgun sýnir fram á það að nefndin er óhrædd við vaxtahækkunarspilið þrátt fyrir mikið atvinnuleysi og talsverðan slaka í hagkerfinu. Spurningin nú er því hversu brattar vaxtahækkanir framundan verða? Ekki var mikið um framsýna leiðsögn hvað það varðar. Þrátt fyrir að hafa öll spil á hendi má segja að Seðlabankinn sé þó tregur til að sýna okkur hinum á þau spil.