Sautján fyrirtækjum veitt viðurkenning fyrir góða stjórnarhætti

Í dag, þann 21. ágúst 2020, veittu Stjórnvísi, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland stjórnum sautján fyrirtækja viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og var þeim jafnframt veitt nafnbótin: Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Fyrirtækin sem hlutu nafnbótina að þessu sinni eru Arion banki hf., Eik fasteignafélag hf., Íslandsbanki hf., Íslandssjóðir hf., Kvika hf., Landsbankinn hf., Lánasjóður sveitarfélaga ohf., Mannvit hf., Reginn hf., Reiknistofa bankanna hf., Reitir hf., Stefnir hf., Sýn hf., TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Vörður hf. og Ölgerðin Egill Skallagríms hf.

Verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum var sett á legg fyrir tæpum áratug síðan. Með tilkomu þess var ætlunin að bæta stjórnarhætti fyrirtækja á Íslandi og auka eftirfylgni stjórna þeirra við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi.

Í verkefninu felst að öllum fyrirtækjum gefst tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda sinna. Einnig er könnuð fylgni við leiðbeiningarnar, almennar reglur og lög sem gilda um starf stjórna.

Öll eru þessi fyrirtæki vel að nafnbótinni komin, starfshættir stjórna þeirra eru vel skipulagðir og þeir ásamt framkvæmd stjórnarstarfanna til fyrirmyndar.

Hér má skoða myndir sem teknar voru á sólríkum sumardegi á Nauthóli.