Samtök atvinnulífsins telja forsendur kjarasamninga brostnar
Samtök atvinnulífsins telja forsendur Lífskjarasamningsins brostnar og að samningsaðilum beri að bregðast við. Samtökum atvinnulífsins sé heimilt að segja kjarasamningum upp um komandi mánaðamót komi verkalýðshreyfingin ekki til móts við atvinnulífið og aðlagi kjarasamninga að gjörbreyttri stöðu efnahagsmála.
Samtök atvinnulífsins hafa átt samtöl við forystu verkalýðshreyfingarinnar, með formlegum og óformlegum hætti, um viðbrögð við forsendubrestinum og m.a. bent á eftirfarandi þætti:
- Skömmu fyrir gerð Lífskjarasamningsins spáði Hagstofa Íslands 10,2% samfelldum hagvexti árin 2019-2022, en í júní síðastliðnum var 0,8% vexti spáð á þessum fjórum árum. Þannig er nú gert ráð fyrir að landsframleiðslan verði 300 milljörðum króna lægri á árinu 2021 en gert var ráð fyrir við undirritun Lífskjarasamninga.
- Kostnaðarauki atvinnulífsins vegna tveggja launahækkana sem komið hafa til framkvæmda vegna Lífskjarasamningsins var metinn til u.þ.b. 90 milljarða króna, sem samsvarar fjórum milljörðum á mánuði. Launamælingar Hagstofunnar sýna heldur meiri hækkanir en staðfesta matið í meginatriðum. Tvær sambærilegar hækkanir eiga eftir að koma til framkvæmda, um næstu og þarnæstu áramót. Ljóst er að fjármunir fyrir þeim launahækkunum eru ekki til í atvinnulífinu.
- Skráð atvinnuleysi var 8,5% í ágúst sl. og þar til viðbótar var 1% vinnumarkaðarins í skertu starfshlutfalli. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir 9-10% atvinnuleysi á næstu mánuðum sem samsvarar um 20 þúsund manns. Að auki hafa margir horfið af vinnumarkaði. Gera má ráð fyrir að u.þ.b. 25 þúsund manns verði án atvinnu í heild eða að hluta í árslok.
Augljóslega eru engar forsendur fyrir hækkun launakostnaðar í atvinnulífinu.
Til að bregðast við þessum forsendubresti kynntu SA nokkrar leiðir.
Frestun launahækkana og lenging kjarasamnings sem henni nemur
- Bregðast við með því að lengja í kjarasamningum og fresta öllum dagsetningum þeirra sem nemur lengingunni – en að Lífskjarasamningurinn verði að fullu efndur. Árið er farið forgörðum og þessi nálgun rímar vel við aðrar aðgerðir í samfélaginu að atvinnulífið og launafólk bíði storminn af sér í sameiningu.
Tímabundin lækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði
- Í aðdraganda launahækkunar 1. maí síðastliðinn fóru fram viðræður við hluta verkalýðshreyfingarinnar um tímabundna lækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði til að draga úr launakostnaði atvinnurekenda. Um væri að ræða tímabundna ráðstöfun.
Tímabundin frestun endurskoðunar kjarasamninga
- Meðan ekki liggur fyrir hvort eða hvenær bóluefni gegn COVID-19 sjúkdómnum kemur er ljóst að aðilar taka afdrifamikla ákvörðun á grundvelli mjög ófullkominna upplýsinga, en tilkoma bóluefnis mun gjörbreyta efnahagsforsendum á næsta ári til hins betra. Samkvæmt spám þeirra sem best þekkja til má gera ráð fyrir því að traustari upplýsingar um tímaferil framboðs á bóluefni og bólusetningar liggi fyrir innan fárra mánaða.
Til viðbótar eru Samtök atvinnulífsins tilbúin til viðræðna um hvers kyns aðgerðir til að fjölga störfum og styrkja viðnámsþrótt atvinnulífsins.
ASÍ hafnar öllu samstarfi
Á formannafundi ASÍ 22. september sl. var öllum tillögum SA hafnað og bætt um betur með því að hóta víðtækum verkföllum. Öll viðbrögð ASÍ lýsa skilningsleysi á aðstæðum í atvinnulífinu og hótanir um verkföll eru fullkomlega innistæðulausar enda augljóst að verkföll muni einungis valda félagsmönnum ASÍ enn meira tjóni en þegar er orðið.
Næstu skref
Launa- og forsendunefnd ASÍ og SA hefur lokið störfum án þess að sameiginleg niðurstaða næðist um mat á forsendum. Að mati SA er ljóst að tiltekin tímasett vilyrði í yfirlýsingu stjórnvalda frá 3. apríl 2019 hafa ekki gengið eftir sem veitir báðum samningsaðilum heimild til að lýsa því yfir að forsendur kjarasamninga hafi brostið.
Grundvallarforsenda kjarasamninganna um aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu, sem er forsenda launahækkana, hefur ekki gengið eftir og kallar á endurskoðun samninganna.
Framkvæmdastjórn SA hefur það hlutverk að taka afstöðu til þess hvort kjarasamningar eigi að halda gildi sínu. Vegna þeirrar ákvörðunar mun framkvæmdastjórnin boða til allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal aðildarfyrirtækja SA um afstöðu þeirra til uppsagnar kjarasamninga, sem taki gildi þann 1. október 2020.