Samtök atvinnulífsins leggja til nýjar leiðir í kjarasamningum
Kjaraviðræður eru í alvarlegum hnút. Verkalýðshreyfingin kemur til kjaraviðræðna með kröfur um tugprósenta launahækkanir í skammtímasamningi. Næðu slíkar kröfur fram að ganga myndi verðbólgan fara á flug á nýjan leik. Leita verður allra leiða til að forða því.
Hugsum hlutina upp á nýtt
Nálgast verður kjaraviðræður með allt öðrum hætti ef ekki á illa að fara. Samtök atvinnulífsins óska eftir uppbyggilegu samstarfi við samtök launafólks um nýja nálgun um að stokka upp áratugagömul launakerfi með sameiginlega hagsmuni launafólks og fyrirtækja að leiðarljósi. Launakerfin eru komin vel til ára sinna. Tiltölulega lág grunnlaun í samanburði við heildarlaun, háar álagsgreiðslur og mikill ósveigjanleiki í skipulagi vinnutíma svara illa þörfum atvinnulífsins. Vaxandi greinar á borð við ferðaþjónustu kalla á mun meiri sveigjanleika. Sama gildir um aðrar lykilatvinnugreinar á borð við iðnað og sjávarútveg, svo ekki sé minnst á nýsköpunarfyrirtæki.
Hærri grunnlaun
Samtök atvinnulífsins leggja til að grunnlaun verði hækkuð en jafnframt verði samningsbundnar álagsgreiðslur á laun lækkaðar. Álagsgreiðslur á Íslandi, á borð við greiðslur fyrir yfirvinnu og vaktavinnu, eru mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Hátt hlutfall yfirvinnugreiðslna er kerfislægur þáttur í launakerfum á Íslandi sem að töluverðu leyti má rekja til reglna í kjarasamningum. Stuðningur launafólks hefur farið vaxandi við að dregið sé úr yfirvinnu og betri framfærslumöguleikar skapist af dagvinnulaununum einum, enda er það mikilvægt til að tryggja jafnvægi á milli atvinnu og fjölskyldulífs.
Minni yfirvinna
Uppstokkun launakerfa gæti orðið farvegur til að koma til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika. Slík uppstokkun krefst mikillar vinnu og gaumgæfa þarf möguleg áhrif slíkra breytinga á starfsumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja í bráð og lengd. Fyrirtækin þurfa tíma til aðlögunar að breytingunum en þegar fram í sækir væri markmiðið að ný launakerfi væru ráðandi í atvinnulífinu.
Sérstakar hækkanir lægstu launa krefjast víðtækrar samstöðu
Samhliða fyrrgreindum breytingum eru Samtök atvinnulífsins reiðubúin til þess að skoða sérstaklega hvernig stuðla megi að því að lægstu dagvinnulaun dugi betur til framfærslu. Forsenda þess er að samstaða takist um slíka áherslu innan verkalýðshreyfingarinnar, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Samtök atvinnulífsins vilja með þessu leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að sú erfiða staða sem nú er uppi í kjaraviðræðum leiði til stjórnlausra víxlhækkana launa og verðlags líkt og veruleg hætta er á að gerist ef kjaraviðræður halda áfram í þeim átakafarvegi sem þær eru í.
Það er sameiginleg ábyrgð atvinnurekenda og launþegahreyfingarinnar að halda áfram að bæta lífskjör hér á landi og standa vörð um jafnvægi í íslensku efnahagslífi. Um það markmið verðum við að sameinast. Það er forsenda áframhaldandi vaxtar kaupmáttar launa, hóflegrar verðbólgu og lækkunar vaxta.