Samstöðu þarf til

Engan óraði fyrir því að fram undan væri ein mesta efnahagskreppa sögunnar þegar lífskjarasamningurinn var gerður fyrir ári. Þá var öllum ljóst að hægja myndi verulega á hagvexti en vonir stóðu til þess að áfram yrði unnt að bæta lífskjör. En skjótt skipast veður í lofti. Nú er atvinnuleysi meira en nokkru sinni fyrr, tekjur fyrirtækja hafa hrunið og alþjóðaviðskipti í algeru frosti.

Landið er nánast lokað. Íslenskt samfélag og efnahagur stendur sem betur fer á traustum grunni og er vel í stakk búið til að mæta þessari áskorun. Ólíkt kreppunni fyrir áratug dynja hamfarirnar á öllum löndum samtímis á sama hátt. Útflutningstekjurnar, sem eru grundvöllur lífskjara okkar, og þar með tekjur hins opinbera, minnka um mörg hundruð milljarða króna.

Við slíkar aðstæður er óhjákvæmilegt að endurmeta ákvarðanir sem teknar voru við gerólíkar aðstæður. Við vitum að fjölmörg fyrirtæki munu eiga erfitt uppdráttar næstu misserin. Þau þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum, endurskipuleggja rekstur sinn í ljósi minni tekna og draga úr rekstrarkostnaði, m.a. með fækkun starfsfólks. Því lengur sem þetta ástand varir þeim mun alvarlegri verða afleiðingarnar.

Ríkisstjórnin hefur brugðist við með fjölþættum aðgerðum til að milda áhrifin á heimili landsins. Einnig hefur fyrirtækjum verið rétt hjálparhönd til að komast yfir erfiðasta hjallann. Eftir sem áður er vandinn ærinn og verður mörgum fyrirtækjum óyfirstíganlegur. Heilbrigðisstarfsfólk hefur, með elju og dugnaði og með þjóðina í liði, náð tökum á útbreiðslu veirunnar sem öllu þessu veldur – fyrr og betur en víðast hvar.

Nú má sjá þess merki að hámarki útbreiðslunnar sé náð í fjölmörgum löndum og víða er farið að undirbúa að fólk geti smám saman tekið upp eðlilega lífshætti að nýju. Það mun taka töluverðan tíma fyrir samgöngur og alþjóðaviðskipti að komast í fyrra horf en undir því er endurreisn atvinnulífsins komin. Þótt stuðningsaðgerðir ríkissjóðs við heimili og fyrirtæki gagnist vel er svigrúm hans ekki ótakmarkað.

Endurheimt fyrri lífskjara getur ekki hafist fyrr en tekist hefur að mestu að vinna bug á veirunni skæðu á heimsvísu. Þá fyrst geta fyrirtækin sótt fram að nýju og fjölgað starfsfólki. Það mun taka langan tíma, jafnvel þótt langtímahorfur hér á landi séu betri en víðast hvar. Sérstaklega ber að fagna þeirri ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar að horfa til framtíðar og leggja verulega áherslu á stuðning við rannsóknir, nýsköpun og þróun með myndarlegu framlagi. Við endurreisnina fram undan þurfa allir að vinna saman. Hvort sem einstaklingarnir mynda fjölskyldur, starfa saman í atvinnulífinu, á Alþingi, í ríkisstjórn, í heilbrigðiskerfinu eða í verkalýðshreyfingunni. Ekki dugar að horfa einungis til eigin hagsmuna heldur verður að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Ljúka þarf kjaraviðræðum á opinberum vinnumarkaði á grunni lífskjarasamningsins tafarlaust. Þar er ábyrgð samningsaðila mikil og ljóst að tíminn er á þrotum. Ef atbeina ríkisvaldsins og Alþingis þarf til að tryggja þá niðurstöðu er það betri kostur en áframhaldandi óvissa og hefðbundnar tilraunir til höfrungahlaups. Góð samvinna hefur skilað góðum árangri í viðureigninni við kórónuveiruna og sigur á henni er í augsýn. Með sama hugarfari getum við líka unnið okkur út úr kórónukreppunni – að minnsta kosti jafnhratt og aðrir.

Eyjólfur Árni Rafnsson er formaður Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 2. maí.