Samningsumboð aðildarfyrirtækja hjá SA

Samtök atvinnulífsins telja að nýgerður kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við verktakafyrirtækið Snók sé ógildur ef um almennan kjarasamning er að ræða. Þegar fyrirtæki gerast aðilar að Samtökum atvinnulífsins veita þau almennt SA samningsumboð fyrir sína hönd. Samningar sem fyrirtækin gera við tiltekin verkalýðsfélög hafa því ekki gildi án samþykkis SA þar sem samningsumboðið er hjá SA.

Fjallað var um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar þar sem rætt var við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Þar benti hann á að fyrirtæki sem hafi samið beint við verkalýðsfélög í gegnum tíðina hafi  oft bakað sér meiri vandræði heldur en sá vandi sem þau eru að reyna að leysa hefur valdið þeim.

Í frétt Bylgjunnar var fullyrt að Samtök atvinnulífsins telji kjarasamning sem Norðurál gerði við Verkalýðsfélag Akraness 17. mars ógildan en það er ekki rétt. SA telja hins vegar að samningur Snóks við  Verkalýðsfélag Akraness sé ógildur eins og áður segir.

Þorsteinn segir ekki flókið að staða fyrirtækja sem standi ein gegn verkalýðshreyfingunni sé mjög veik. Þess vegna hafi fyrirtæki valið að vera innan raða SA en um 2.000 fyrirtæki eru félagsmenn í Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.