Samningstilboð SA til blaðamanna

Samtök atvinnulífsins hafa birt samningstilboð sitt til Blaðamannafélags Íslands (BÍ) í yfirstandandi kjaraviðræðum aðilanna. SA óskuðu eftir því á sáttafundi samninganefnda hjá ríkissáttasemjara í morgun að þetta yrði gert og féllst Blaðamannafélagið á ósk samtakanna.

Þar með geta félagsmenn BÍ kynnt sér tilboðið áður en atkvæðagreiðsla um verkfall hefst. Samtök atvinnulífsins telja það mjög mikilvægt og árétta að grundvöllur tilboðsins til BÍ er Lífskjarasamningurinn og þær hækkanir sem felast í honum.

Samtök atvinnulífsins hafa boðið blaðamönnum kjarabætur sem samrýmast að fullu þeirri launastefnu sem mörkuð var með Lífskjarasamningnum og nú þegar hefur verið samið um við yfir 95% launafólks á almennum vinnumarkaði auk fimm stéttarfélaga innan BHM hjá ríkinu. Fullur vilji hefur verið hjá SA til að leiða viðræðurnar til lykta.

Yfirgnæfandi meirihluti launafólks og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði hefur samþykkt Lífskjarasamninginn í atkvæðagreiðslum. Lífskjarasamningurinn markar launastefnu SA gagnvart viðsemjendum sínum og þeirri stefnu verður fylgt gagnvart þeim sem enn eiga ósamið.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun blaðamanna fer fram á morgun, miðvikudag. Verkföll valda alltaf tjóni og skerða getu fyrirtækja í erfiðu árferði til að standa undir kjarabótum til starfsmanna. Öllum má vera ljóst að verkfall mun ekki auka svigrúm fjölmiðla til hækkunar launakostnaðar.

Sjá nánar:

Samningstilboð SA til BÍ (PDF)