Samkeppnisstofnun ESB fær á baukinn
Evrópudómstóllinn (undirrétturinn) hefur nýlega veitt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, vegna samkeppnisstofnunar ESB, harðar ákúrur vegna nokkurra ákvarðana stofnunarinnar um bann við samruna fyrirtækja. Dómstóllinn átelur harðlega bæði mælistikur og starfshætti samkeppnisstofnunarinnar. Samkeppnisstofnun ESB er í raun sérstakur verkefnishópur sem starfar á vegum framkvæmdastjórnar ESB undir forystu Mario Monti framkvæmdastjóra.
Ákvörðunum ítrekað snúið við af dómstólum
Í fyrsta lagi er um að ræða bann sem samkeppnisstofnun ESB
hafði lagt við samruna tveggja ferðaskrifstofa í Bretlandi, í öðru
lagi við samruna tveggja franskra raftækjaframleiðenda og loks í
þriðja lagi við samruna tveggja umbúðaframleiðenda. Í öllum þessum
málum beið samkeppnisstofnunin ósigur fyrir rétti. Auk þessa eru
aðrar ákvarðanir stofnunarinnar enn í áfrýjun, og er þar mál
General Electric og Honeywell frægast.
Lofar breyttum vinnubrögðum
Dómstóllinn fer hörðum orðum um mælistikur og markaðsgreiningu
samkeppnisstofnunar ESB. Fram kemur að ýmislegt er óljóst og
mótsagnakennt í álitsgerð stofnunarinnar, markaðsstaða
fyrirtækjanna ofmetin og aðilum meinað um áskilinn andmælarétt. Þá
eru vinnubrögð samkeppnisstofnunar ESB ekki síður harðlega
gagnrýnd. Mario Monti, sem fer með þessi mál á vegum
framkvæmdastjórnar ESB, hefur nýlega viðurkennt mistökin og lofað
breyttum vinnubrögðum samkeppnisstofnunarinnar, að því er fram
kemur í
umfjöllun breska tímaritsins The Economist á dögunum.
Viðmiðunarmörk ESB um samruna eru að heildarvelta beggja eða
allra viðkomandi fyrirtækja á heimsvísu nemi meira en fimm
milljörðum evra samtals (um 435 milljörðum ísl. kr.) og að velta
hvors eða hvers þátttökufyrirtækis um sig innan ESB nemi meira en
250 milljónum evra (um 21,8 milljarðar ísl. kr.). Auk þessa eru
nánari reglur, einkum varðandi fyrirtæki sem starfa í þremur eða
fleiri aðildarríkjum ESB.