Samkeppnishugsun í menntakerfið (1)

Nýtt meistaranám í lögfræði, viðræður um einkaskóla fyrir sex ára bekk og spá um breytt rekstrarform deilda við Háskóla Íslands. Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins í dag, undir yfirskriftinni Samkeppnishugsun í menntakerfið: þjónusta, nýjungar, skólagjöld. Þar fjallaði Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, um þjónustuhugsun í skólastarfi, Gylfi Magnússon, dósent við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, um rekstrarumhverfi skóla og skólagjöld, og Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, um nýjungar í rekstri grunnskóla. Hér á eftir fylgir frásögn af fundinum ásamt glærum ræðumanna.

Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, stýrði fundinum og við opnun hans sagði Ari afar ánægjulegt að fylgjast með áherslu sumra hinna nýju háskóla á þjónustu við eftirspurn atvinnulífsins og á samkeppnishæfni þess, og fjallaði um jákvæð áhrif samkeppninnar á Háskóla Íslands. Hann sagði mikilvægt að hlúa að þessari samkeppnishugsun á öllum skólastigum. Hann vitnaði m.a. til orða skólameistara Iðnskólans um nauðsyn samkeppni á framhaldsskólastiginu og sagði bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa riðið á vaðið með afar athyglisverðar nýjungar í rekstrarformi grunnskóla, þar sem samið hefði verið við metnaðarfullan aðila um skólaverkefni í einkaframkvæmd.

Hrun "Berlínarmúrs einangrunar" og nýtt meistaranám
Runólfur Ágústsson fjallaði m.a. um gerbreytt aðgengi að upplýsingum og áhrif þess á nám og kennslu. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að skólar gætu brugðist hratt við breyttum aðstæðum, t.d. í tækni og í atvinnulífinu. Runólfur sagði að í gegnum tíðina hefði menntun verið of mikið sniðin að þörfum skólanna sjálfra, en að framtíðin væri sú að menntun yrði sniðin að þörfum fyrirtækja, atvinnulífs og samfélagsins alls. Hann sagði Viðskiptaháskólann á Bifröst skilgreina sig sem þekkingarfyrirtæki í samkeppnisumhverfi, og að viðskiptavinirnir væru nemendur, atvinnulífið og samfélagið í heild. Sem dæmi um jákvæð áhrif samkeppninnar fjallaði Runólfur um nýjungar í framboði á námi í viðskiptalögfræði á Bifröst og í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, og þær miklu breytingar sem í kjölfarið urðu við lagadeild Háskóla Íslands. Sagði Runólfur að þar hefði samkeppnin leitt til hruns "Berlínarmúrs einangrunar og einokunar" sem umlukið hefði laganám á Íslandi. Loks greindi Runólfur frá því að Viðskiptaháskólinn hyggðist bjóða upp á ML nám sem undirbúi fólk til lögmannsstarfa í viðskiptum og atvinnulífi.

Skólagjöld við HÍ "ekki brottgangssök"
Gylfi Magnússon sagði ýmis rök fyrir niðurgreiddri menntun. Hann sagði þó alltaf spurningu hvar draga ætti mörkin og hvernig bæri að forgangsraða. Í því sambandi benti hann á að einn mánuður í leikskóla kostar álíka mikið og eitt ár við Háskóla Íslands. Gylfi fjallaði um samkeppnisstöðu Háskóla Íslands við háskóla sem innheimta skólagjöld auk þess að vera með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið. Hann sagði þetta kannski eðlilegt fyrirkomulag á meðan að nýir skólar væru að koma sér fyrir, en að einhvern veginn yrði síðan að bæta HÍ upp þennan mun. Aðspurður sagði hann skólagjöld við HÍ geta verið hluta af svarinu, og sagðist hann ekki telja skólagjöld upp á t.d. eitt eða tvö hundruð þúsund krónur vera frágangssök. Hins vegar væri annar hluti svarsins sá að skólar yrðu látnir velja milli þess að gera þjónustusamning við hið opinbera eða innheimta skólagjöld. Agnar Hansson, forseti Viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, andmælti þessu sjónarmiði á fundinum og sagði fjölmörg dæmi um það erlendis að háskólar hefðu tekjur af skólagjöldum samhliða þjónustusamningi við hið opinbera.

Samkeppnin aðalatriðið
Loks fjallaði Gylfi um ólík rekstrarform og sagði mörg þeirra hafa bæði kosti og galla. Hann sagði mjög heppilega lausn að auka sjálfstæði deilda, gera þær að "skólum innan skólans," hvaða nafni sem það væri kallað. Gylfi sagðist telja líklegt að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp innan fárra missera, hvað snertir Viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Hann sagðist þó ekki telja rekstrarformið vera aðalatriðið, heldur að samkeppni ríkti, sjálfstæði skóla og deilda og ábyrgð samhliða frelsinu. Gylfi sagði aukna samkeppni undanfarinna missera hafa haft mjög jákvæð áhrif á sína deild innan HÍ, það ríkti engin lognmolla þegar menn þyrftu að vera á tánum allan ársins hring.

Nauðsyn að geta umbunað framúrskarandi kennurum
Magnús Gunnarsson fjallaði um kosti þess að semja við einkaaðila um rekstur skóla. Með slíku fyrirkomulagi væri t.d. kostnaður fyrirsjáanlegur, viðhald bygginga eins og best yrði á kosið og yfirstjórn skólanna þyrfti ekki að hugsa um rekstur bygginga heldur aðrir þeir er sérhæfðir væru í slíkum rekstri. Magnús lagði áherslu á mikilvægi þess að hægt væri að mæla árangur í rekstri. Þetta gilti um skólakerfið líkt og annan rekstur. Hann sagði jafnframt nauðsynlegt að hægt væri að umbuna kennurum sem sköruðu framúr í starfi, hafa hvatningu til þeirra. Magnús lagði áherslu á mikilvægi þess að minnka miðstýringuna flytja valdið og ábyrgðina út til sjálfra stjórnenda skólanna.

Einkaskóli með sex ára bekk?
Magnús sagði hugtökin árangurstengingu og þjónustusamninga vera að skjóta rótum í rekstri grunnskóla og leikskóla í Hafnarfirði. Hann fjallaði um fyrirtækið Hjallastefnu ehf. sem rekur leikskóla og greindi frá hugmyndum fyrirtækisins um að setja á fót einkarekinn grunnskóla. Magnús sagði hugmynd að nýjum samningi við  Hjallastefnuna ehf. um rekstur fyrsta bekkjar grunnskóla vera á viðræðustigi. "Hugmyndin felur í sér að Hjallastefnan mun bjóða nemendum leikskólans Hjalla í Hafnarfirði að sækja nám í fyrsta bekk grunnskóla á vegum fyrirtækisins sem fyrsta skref. Þannig verði stofnaður einkaskóli á vegum Hjallastefnunnar til þess að sinna þessu verkefni," sagði Magnús.

Glærur Runólfs Ágústssonar

Glærur Gylfa Magnússonar

Glærur Magnúsar Gunnarssonar