Samið við iðnaðarmenn

Í nótt skrifuðu Samtök atvinnulífsins undir kjarasamninga við sex félög og sambönd iðnaðarmanna. Þar með eru kjarasamningar komnir á fyrir nær allan almenna vinnumarkaðinn.
Samningarnir gilda frá 1. apríl til 1. nóvember 2022 og niðurstöður atkvæðagreiðslna skulu liggja fyrir þann 22. maí.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í samtali við mbl.is að kjarasamningarnir séu efnahagslega ábyrgir og að báðir samningsaðilar geti á heildina litið verið ánægðir. Samningarnir ná til rétt um 13 þúsund iðnaðarmanna.

Halldór Benjamín Þorbergsson segir að ferlið hafi verið langt og strangt, enda hafi það tekið mánuð frá undirritun Lífskjarasamningsins.

„Það er ánægjulegt að það náðist samhljómur á milli samningsaðila á síðustu dögum,“ segir hann og nefnir að það sem ber hæst sé að almennar hækkanir til iðnaðarmanna séu þær sömu og í Lífskjarasamningnum, eða 68 þúsund krónur á samningstímabilinu. Samningstímabilið er einnig það sama og miðað er við að taxtahækkanir verði 90 þúsund krónur. Samningurinn byggist sömuleiðis á „nálgun um hagvaxtarauka og launaþróunartryggingu sem er órofa hluti af Lífskjarasamningnum“.

Framkvæmdastjóri SA nefnir einnig mismunandi útfærslur varðandi styttingu á vinnutíma samhliða upptöku virks vinnutíma og niðurfellingu kaffitíma. Nú hafi stór hluti launafólks á Íslandi ákveðið að fara í þá vegferð með atvinnurekendum að reyna nýja leið við kjarasamningsgerðina.

„Ég tel einsýnt að þessi samningur byggi undir áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika og geti skapað skilyrði í þjóðarbúinu fyrir lækkun vaxta til frambúðar. Það er helsta kappsmál heimila og fyrirtækja í landinu enda erum við öll á sama báti.“

Halldór bætir við að almenni markaðurinn hafi markað skýra launastefnu sem birtist annars vegar í Lífskjarasamningnum og hins vegar í samningunum sem voru undirritaðir í nótt og frá henni verði ekki hvikað. Aðspurður segir hann að framundan hjá Samtökum atvinnulífsins sé fjöldi funda með öðrum smærri hópum viðsemjenda.

Samningana má nálgast á vinnumarkaðsef SA

Aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins er bent á að beina fyrirspurnum um framkvæmd launabreytinga til vinnumarkaðssviðs SA.