Samfélagsábyrgð og arðbær rekstur eiga samleið

Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð efna til ráðstefnu í Hörpu á morgun þar sem verður rætt um samfélagsábyrgð og ávinning af ábyrgum stjórnarháttum fyrirtækja. Síðdegisútvarpið á Rás 2 fjallaði um ráðstefnuna í vikunni og ræddi við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA. Þar sagði hann aðspurður m.a. að samfélagsábyrgð og arðbær rekstur fyrirtækja eigi samleið.

Vaxandi áhugi er innan atvinnulífsins á því að taka samfélagsábyrgð föstum tökum og vinna formlega að innleiðingu góðra stjórnarhátta. Þorsteinn segir að atvinnulífið vilji almennt sýna ábyrgð en samfélagsábyrgð fyrirtækja snúi að öllum þeim ákvörðunum sem stjórnendur taka í daglegum rekstri og áhrifum þeirra á umhverfið bæði nær og fjær. Þorsteinn nefnir t.d. ábyrg innkaup fyrirtækja, að fyrirtæki séu meðvituð um hvernig vara sem þeir kaupa af birgjum er framleidd, að tryggt sé að erlendir birgjar fyrirtækjanna stundi t.d. ekki barnaþrælkun og að við framleiðsluna sé sýnd varúð í umhverfismálum.  Ábyrg innkaupastefna feli í sér að horft sé til þess hvernig vara er framleidd og áhrifum hennar á umhverfi en ekki verðs vörunnar.

Annar þáttur samfélagsábyrgðar lítur að nærumhverfi fyrirtækja og hvernig þau geta tengt rekstur sinn og hagsmuni samfélagsins sem þau starfa í betur saman. Aðspurður hvort samfélagsábyrgð fyrirtækja geti farið saman við arðbæran rekstur sem miðar að því að skila hluthöfum hagnaði sagði Þorsteinn svo vera.

„Ég held að langtímaarðsemi og samfélagsábyrgð fari mjög vel saman,“ sagði hann og nefndi t.d. ábyrga nýtingu auðlinda. Augljóst sé að auðlindir gangi til þurrðar ef þær eru ekki nýttar með sjálfbærum hætti og það grafi þá á endanum undan arðsemi fyrirtækjanna sem ætli að nýta þær til lengri tíma litið.

„Ef starfsemi fyrirtækis snýst eingöngu um að græða sem mest en hagur samfélagsins er ekki borinn fyrir brjósti þá minnkar þol samfélagsins fyrir þeim rekstri verulega.“ Þorsteinn vísaði til hugmynda Michael Porter prófessors við Harvard háskóla en hann horfir til dæmis þess hvernig fyrirtæki úti á landsbyggðinni geti bætt það samfélag þar sem það starfar í til að gera það að áhugaverðari búsetukosti fyrir starfsfólk. Fyrirtækið verður eftirsóttari vinnustaður, samfélagið eflist og starfsskilyrði atvinnulífsins batna. Þannig fara hagsmunirnir  saman.

Mikill áhugi er á ráðstefnu Festu og SA en frestur til að skrá þátttöku rennur út í dag. Ráðstefnan fer fram í Silfurbergi í Hörpu kl. 8.30-12.

Dagskrá og nánari upplýsingar má nálgast á vef SA.

Skráning er á vef Festu.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að neðan en þar var einnig rætt um öryggismál starfsmanna og launamál. Viðtal Síðdegisútvarpsins hefst eftir að 53 mínútur og 40 sekúndur eru liðnar af þættinum.

Smelltu hér til að hlusta

SA og Global Compact

Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact – sáttmála sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð.

Um er að ræða eitt öflugasta framtakið í heiminum á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja og sjálfbærni. Sameinuðu þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum í júlí árið 2000 en um er að ræða 10 viðmið sem fyrirtæki setja sér að fara eftir.

Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu geta notað Global Compact til að gera viðskiptavinum sínum, birgjum og opinberum aðilum grein fyrir samfélagsstefnu sinni. Aukin krafa er um að fyrirtæki geri opinberlega grein fyrir hvernig þessum málum er háttað innan fyrirtækjanna.

Meira en sjö þúsund fyrirtæki hafa skrifað undir Global Compact í heiminum en alls hafa yfir yfir 12.000 aðilar skrifað undir sáttmálann í 145 löndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að 20 þúsund fyrirtæki hafi skrifað undir sáttmálann árið 2020 með það að markmiði að auka sjálfbærni efnahagslífs

Alls hafa 15 aðilar skrifað undir Global Compact á Íslandi en viðbúið er að það fjölgi í hópnum á næstu vikum og mánuðum.

Vefur Global Compact