Sænska merkið í höfn
Í gær, 1. nóvember 2020, náðist samkomulag milli samtaka atvinnurekenda og launafólks í sænskum iðnaði um launabreytingar til næstu ára. Samningurinn nær til þriggja milljóna launamanna í fimm stéttarfélögum.
Á næstu vikum verða 500 kjarasamningar endurnýjaðir á grundvelli fordæmis samninga iðnaðarins, en í Svíþjóð ríkir samstaða meðal aðila vinnumarkaðarins um að kostnaðarauki annarra kjarasamninga fari ekki umfram merkið sem iðnaðurinn gefur.
Laun hækka tvisvar á samningstímanum; um 3,0% frá 1. nóvember 2020 og um 2,4% þann 1. apríl 2022, eða samtals um 5,4% á öllu tímabilinu. Samningurinn gildir til 31. mars 2023.
Merkið er fólgið í kostnaðaraukningu á samningssviðum og nokkur sveigjanleiki til mismunandi útfærslna. Þannig hækka mánaðarlaun undir 26.100 SKR (u.þ.b. 400.000 ISK) sérstaklega og stéttarfélag skrifstofufólks (Unionen) kaus að verja 0,4% af kostnaðarsvigrúminu til aukinna lífeyrisréttinda.
Áðurgildandi samningur rann út fyrir sjö mánuðum. Þá voru samningsbundnar, árlegar launahækkanir rúmlega 2%, eða samtals 6,5% á þriggja ára samningstíma.
Talsmenn iðnaðarins telja launahækkanirnar of miklar fyrir fjölda lífvænlegra fyrirtækja sem hafa litla greiðslugetu vegna kórónukreppunnar, en í ljósi þess að samningnum er ætlað að ná yfir allt samfélagið verður iðnaðurinn að taka tillit til þess að kreppan kemur mismunandi niður.
Þeir benda á að 100 þúsund störf hafi tapast í kreppunni sem einkum hafi bitnað á ungu fólki og fólki með erlendan bakgrunn. Mikil ábyrgð hvíli á aðilum vinnumarkaðarins að opna dyr vinnumarkaðarins fyrir þessu fólki en þrátt fyrir stuðningsaðgerðir stjórnvalda eigi mikill fjöldi fyrirtækja erfitt uppdráttar.
Talsmenn verkalýðsfélaganna telja að samningurinn muni stuðla að áframhaldandi kaupmáttaraukningu, auknum launajöfnuði og jafnari stöðu ungbarnaforeldra.
Á undanförnum tveimur áratugum hefur merkið verið um 2%, með undantekningu frá árinu 2007, sem byggst hefur lágri verðbólgu en hún hefur að jafnaði verið tæplega 1% frá árinu 2008.
Launabreytingar sem hagstofa Svíþjóð mælir á almennum vinnumarkaði hafa að jafnaði verið 2,4% undanfarinn áratug. Til samanburðar hafa árlegar launabreytingar á Íslandi verið 6,5% að jafnaði, eða nálægt þrefalt meiri. Á síðustu 10 árum hafa laun á Íslandi hækkað að jafnaði um 80% en um 20% í Svíþjóð.