SA vilja ræða sérstaka hækkun lægstu launa
Samtök atvinnulífsins eru tilbúin til að skoða sérstaka hækkun lægstu launa í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem rætt var við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA og Björn Snæbjörnsson, formann Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Til að það sé mögulegt þarf að ná sátt um að hlutfallsleg hækkun lægstu launa verði ekki fyrirmynd að almennum launahækkunum því það myndi valda mikilli verðbólgu, aukningu skulda og hækkun vaxta. Allir yrðu í verri stöðu ef slíkir samningar yrðu gerðir en auk hækkunar lægstu launa vilja SA leggja sitt af mörkum til að kaupmáttur haldi áfram að vaxa.
Stórkostleg fækkun starfa?
Kröfur SGS og þeirra stéttarfélaga sem eru með lausa samninga á almennum og opinberum vinnumarkaði eru mjög háar, hærri en þær hafa nokkru sinni verið. Starfsgreinasambandið krefst 50-70% hækkunar launa yfir þriggja ára tímabil og að þeir sem hæst hafa launin innan SGS hækki hlutfallslega mest. Kröfurnar snúa því ekki sérstaklega að hækkun lægstu launa eins og haldið hefur verið fram opinberlega. „Við höfum ítrekað sagt að við værum tilbúin til að ræða sérstaka hækkun lægstu launa,“ sagði Þorsteinn en benti á að það mætti ekki verða til þess að hækka öll laun í landinu um tugi prósenta. Því hefur verið hafnað af viðsemjendum SA og sagt að það sé ófrávíkjanleg krafa að þessar hækkanir verði að ganga upp alla launataxta. „Við ætlum ekki að gera verðbólgusamninga.“
Önnur stéttarfélög á almennum og opinberum vinnumarkaði krefjast jafnframt tugprósenta launahækkana. Þorsteinn segir slíkar kröfur aldrei geta orðið grundvöllur að kjarasamningum. „Þetta myndi keyra verðbólgu upp úr öllu valdi,“ segir hann og benti á að auk mikillar hækkunar vaxta yrðu slíkar launahækkanir ávísun á stórkostlega fækkun starfa hjá fyrirtækjum sem ekki geti velt hækkununum beint út í verðlagið.
Hækkum grunnlaun og minnkum yfirvinnu
Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir vilja til að endurskoða úrelt launakerfi á íslenskum vinnumarkaði, hækka grunnlaun og stytta vinnutíma í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Mikið hefur verið rætt um lága taxta SGS í fjölmiðlum en til marks um það benti framkvæmdastjóri SA á að taxtakerfi SGS sem gerir ráð fyrir 200-250 þúsund króna grunnlaunum skili félagsmönnum SGS 430 þúsund króna meðallaunum. „Ef við værum að hækka þau laun um 50% þá væru þau orðin liðlega 600 þúsund á mánuði sem er komið langt yfir laun millitekjuhópa á vinnumarkaði.“
Þorsteinn segir ljóst að engin sátt verði um að fara þessa leið en fullur vilji sé innan Samtaka atvinnulífsins um að hækka grunnlaun, lækka álagsgreiðslur og minnka yfirvinnu. Jákvæð þróun hafi orðið á vinnumenningu Íslendinga á síðustu áratugum og vinnutími sé styttri en áður en það megi gera enn betur.
Hægt er að hlusta á viðtalið á vef Vísis:
Tengt efni: