SA óska eftir fulltrúum í Ungmennaráð

Brennur þú fyrir menntamálum og starfsumhverfi ungra atvinnurekenda, starfsmanna eða fjárfesta? Sköpum framtíðina saman.

Samtök atvinnulífsins auglýsa eftir áhugasömum einstaklingum til setu í  Ungmennaráði SA. Til stendur að ganga formlega frá stofnun ráðsins á næstu misserum en í ráðinu munu sitja 8 fulltrúar á aldrinum 16-25 ára. 

Ungmennaráð SA er ráðgefandi við starfsmenn og stjórn SA í málefnavinnu, þróunarverkefnum, við gerð umsagna og í kynningarstarfi. Ráðinu er ætlað að veita endurgjöf á áherslur í málefnastarfi ólíkra málaflokka sem byggja ávallt á grundvallarskyldum og tilgangi SA.  Í því felst m.a. að vera málsvari íslenskra atvinnurekenda í hagsmunamálum atvinnulífs, stuðla að samkeppnishæfum og arðsömum atvinnurekstri og kjarasamningagerð.

Mikilvægt er að þeir sem taka sæti í ráðinu geti unnið að þessum markmiðum af heilindum og hafi kynnt sér stefnu SA og áherslur í einstaka málaflokkum og treysti sér sömuleiðis til að vinna í samræmi við þær meginlínur.

Sérstök áhersla verður á málefnum sem tengjast ungu fólki s.s. menntamál, samfélagsábyrgð, starfsumhverfi ungra atvinnurekenda, starfsmanna og fjárfesta.  

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir að með stofnun Ungmennaráðs vilji SA stuðla að enn öflugra málefnastarfi og bættri ákvarðanatöku enda sér fjölbreytt sjónarmið og viðhorf þeirra sem að málum koma lykillinn að auknum gæðum í þessu sambandi.  „SA vilja standa fyrir lifandi umræðum og miðlun um þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni auk þess sem mikilvægt er að SA nái til breiðari hóps.”

SA leggur áherslu á að Ungmennaráðið verði skipað fjölbreyttum hópi. Þar komi saman einstaklingar af öllum kynjum, horft verður til ólíkrar búsetu, aldurs, uppruna og fagstétta.   Ráðið er skipað 8 fulltrúum alls sem tilnefndir eru frá SA, Félagi framhaldsskólanema, Global Compact á Íslandi og Ungum athafnakonum. Ungmennaráð SA er skipað til árs í senn. 

SA hvetur alla áhugasama til að kynna sér málið nánar og skila inn framboði hér á meðfylgjandi rafræna eyðublaði eigi síðar en 30. október 2020.

Ungmennaráð - Umsókn

Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir ingibjorgosp@sa.is, verkefnastjóri menntamála á samkeppnishæfnisviði SA.