SA og HÍ vinna að auknum tengslum náms og starfsvettvangs
Efling starfsnáms og verkefnavinnu í samstarfi við fyrirtæki í landinu er meðal helstu áhersluatriða í nýrri viljayfirlýsingu um samstarf sem Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gert. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, undirrituðu yfirlýsinguna á dögunum.
Með viljayfirlýsingunni vilja Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins koma á fót formlegu samstarfi, bæði til að mæta þörfum nemenda en ekki síður atvinnulífs og samfélags. Samfara örum tækni- og samfélagsbreytingum er gert ráð fyrir að þróun á vinnumarkaði verði hröð og það kallar á starfsfólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Til þess að tryggja velsæld, hagvöxt og framleiðni hér á landi og áframhaldandi samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu telja báðir aðilar nauðsynlegt að menntakerfi og atvinnulíf eigi náið samstarf en með því megi jafnframt tryggja áframhaldandi framþróun íslensks samfélags.
Í viljayfirlýsingunni eru tilgreind nokkur verkefni sem ætlunin er að ráðast í á næstunni. Greina á samstarfsfleti aðilanna tveggja og kanna bæði þörf og viðhorf Samtaka atvinnulífsins og Háskóla Íslands hvors til annars. Þessi vinna verður í höndum sérstaks samstarfshóps sem skipaður verður fulltrúum HÍ og SA. Í framhaldinu er gert ráð fyrir að fram fari sameiginleg stefnumótun og gerð formlegs samstarfssamnings.
Þá er ætlunin að vinna að auknum tengslum náms og starfsvettvangs sem fyrr segir, bæði í gegnum skipulegt starfsnám og verkefnavinnu nemenda við Háskóla Íslands í samstarfi við fyrirtæki og undir handleiðslu leiðbeinenda. Tekið er sérstaklega fram að settar verði reglur sem eiga að tryggja gæði slíkra verkefna og að akademískt frelsi verði virt.
Á myndinni eru fulltrúar Háskóla Íslands og Samtaka atvinnulífsins við undirritun viljayfirlýsingarinnar á dögunum.