SA fjölga konum í stjórnum lífeyrissjóða

Samtök atvinnulífsins hafa á liðnum árum hvatt til þess að fjölbreytni verði aukin í atvinnulífinu, bæði í stjórnum fyrirtækja og stjórnunarstöðum. Í september 2013 taka gildi ný lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns verði aldrei lægra en 40% í stjórnum stærri fyrirtækja og allra lífeyrissjóða. Samtök atvinnulífsins hafa unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll fulltrúa SA í sjóðunum. Að loknum aðalfundum sjóðanna vorið 2012 skipuðu konur 46% sæta SA.

Aðeins vantar eina konu í viðbót til að jafnt kynjahlutfall náist meðal 24 fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í stjórnum sjóðanna. Það mun væntanlega nást á árinu og lokaskrefið stigið til að jafna hlut kynjanna. Þá verða konur væntanlega 12 af 24 stjórnarmönnum SA.

Þetta kemur m.a. fram í nýrri ársskýrslu Samtaka atvinnulífsins sem kemur út miðvikudaginn 6. mars en þá fer aðalfundur samtakanna fram á Hilton Reykjavík Nordica.