SA bjóða afturvirkni samninga
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að SA séu reiðubúin að fallast á kröfu um afturvirkni samninga verði samið á skynsamlegum nótum fyrir mánaðamót.
„Til að liðka fyrir viðræðum og lausn geta SA fallist á gildistöku í formi afturvirkni frá 1. janúar 2019 ef fyrir janúarlok verða undirritaðir kjarasamningar sem taka mið af svigrúmi atvinnulífsins til launabreytinga. Það tilboð fellur auðvitað niður ef viðræðum er slitið og boðað til verkfalla, enda ber allt samfélagið kostnað af þeirri aðgerð.“
Halldór segir að krafan um afturvirkni sé ekki ný af nálinni og geti verið skynsamleg ef skynsamlegir samningar nást.
„Um stór efnisatriði eins og launahækkanir, samningstíma og afturvirkni er tekin ákvörðun í lok samningaviðræðna.“
Krafan byggir á fyrirmynd frá Norðurlöndunum en þar skilgreina stéttarfélög það sem eitt mikilvægasta hlutverk sitt að gera kjarasamninga sem raski ekki samkeppnisstöðu meginatvinnuveganna. Kjarasamningar ganga þar út á að launabreytingar auki kaupmátt til lengri tíma. SA eru tilbúin að gera kjarasamninga á grundvelli norræna módelsins. Þessir aðilar hafa hins vegar hafnað þessari aðferðafræði - nema afturvirkninni.
Samtök atvinnulífsins telja til mikils að vinna að eyða þeirri óvissu sem ríkir. Hún er atvinnurekendum og launafólki kostnaðarsöm og engum í hag.