Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi: 21 áskorun og lausn
Höldum áfram er yfirskrift átaksverkefnis Samtaka atvinnulífsins sem miðar að því að koma fólki og fyrirtækjum landsins í gegnum kreppuna. Á vefsíðunni holdumafram.is má finna 21 áskorun og lausn, viðtöl við atvinnurekendur úti í feltinu, fróðlega tölfræði upp úr könnunum sem samtökin hafa gert í gegnum heimsfaraldurinn og svokallaða velferðarreiknivél. Þar er sýnt fram á í tölum hvað starfsfólk og fyrirtæki þeirra leggja til samfélagsins í formi skattgreiðslna.
Í tengslum við átaksverkefnið sýna SA nú einnig þætti á Hringbraut sem fjalla um tækifæri eftir landsfjórðungum. Eins hafa forsvarsmenn SA lagt land undir fót og hitt félagsmenn hringinn í kringum landið á súpufundum síðustu vikur.
Hringrás atvinnulífs og samfélags mynda órjúfanlega heild. Við byggjum velferð okkar á því að allt gangi vel. Ef fyrirtækjum og starfsfólki gengur vel gengur okkur öllum betur.
21 áskorun og lausn
Forsenda almennrar velmegunar er blómlegt atvinnulíf. Skapa þarf umhverfi til þess að fyrirtækin geti vaxið og skapað aukin verðmæti. Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman 21 áskorun og lausn í sex efnisflokkum sem horfa til þessara þátta. Tillögurnar snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, rekstrarumhverfi atvinnulífsins, sjálfbærri þróun, vinnumarkaðnum, menntamálum og heilbrigðismálum. Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi.
Sögur úr atvinnulífinu
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að samhliða breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar ríði á að gera nauðsynlegar breytingar í heilbrigðisþjónustu. Í því muni nýsköpun og einkaframtakið gegna lykilhlutverki.